Innan við eitt prósent kvenna á barneignaraldri fylgir ráðleggingum

Kolbrún Sveinsdóttir vakti athygli á lítilli fiskneyslu þjóðarinnar á málþingi …
Kolbrún Sveinsdóttir vakti athygli á lítilli fiskneyslu þjóðarinnar á málþingi Matís. Ljósmynd/Aðsend

Konur borða minni fisk en karlar og aðeins eitt prósent kvenna á barneignaraldri fylgir ráðleggingum landlæknis um hve oft ætti að borða fisk. Sérfræðingur hjá Matís segir þetta áhyggjuefni.

Í erindi sínu „Er fiskur í matinn?“ á málþingi Matís í síðustu viku vakti Kolbrún Sveinsdóttir, sérfræðingur hjá Matís, athygli á minnkandi fiskneyslu Íslendinga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni.

Konur borða lítið af fiski

Í erindi Kolbrúnar kom fram að fiskneysla er töluvert minni hjá konum en körlum. Þannig fylgja 44% karla ráðleggingum landlæknis varðandi fiskneyslu, en einungis 34% kvenna.

Landlæknir ráðleggur fólki að borða fisk tvisvar til þrisvar í viku en Kolbrún segir sérstakt áhyggjuefni að innan við 1% kvenna á barneignaraldri, það er 18-39 ára, fylgi þessum ráðleggingum. 

Í tilkynningu frá Matís segir að steinefnið joð sem finnst í fiski hafi mikil áhrif á starfsemi taugakerfis og framleiðslu skjaldkirtilshormóna en hvað varðar konur á barneignaraldri sé joð nauðsynlegt fyrir eðlilegan vöxt og þroska fósturs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert