Langur aðdragandi að höfnuninni

Jökulsárlón er í Vatnajökulsþjóðgarði.
Jökulsárlón er í Vatnajökulsþjóðgarði. mbl.is/Ásdís

Ákvörðun Vatnajökulsþjóðgarðs um að veita ekki leyfi fyrir árlegri flugeldasýningu á Jökulsárlóni á sér aðdraganda til ársins 2021, ef ekki lengur.

Þetta kemur fram í tilkynningu þjóðgarðsins.

Þar segir að fjallað hafi verið um fyrirkomulag sýningarhaldsins í stjórn þjóðgarðsins árið 2021. Þá hafi verið ákveðið að veita leyfi fyrir flugeldasýningunni árin 2021 og 2022 „en hvatt til að leitað yrði annarra og umhverfisvænni leiða til svipaðs viðburðar við Jökulsárlón í framtíðinni“.

Skýrt í hvað stefndi

Björgunarfélagið sótti aftur um að halda flugeldasýninguna árið 2023. Þá sagði í svari þjóðgarðsins að í ljósi þess að viðburðurinn væri ein aðal tekjulind björgunarfélagsins væri leyfi fyrir flugeldasýningunni samþykkt. 

Þar sagði þó einnig: „Skýrt er hins vegar tekið fram að umsókn að ári um að flugeldasýningin verði endurtekin mun að líkindum ekki hljóta brautargengi.“

Ástæðan sem gefin var var að umhverfisviðmið hafi þróast hratt og „mótað það viðhorf að allra leiða skuli leitað til þess að draga úr losun á mengandi efnum jafnt frá reglubundinni starfsemi sem og stökum viðburðum.“

Þjóðgarðurinn teldi nauðsynlegt að endurskoða útfærslu viðburðarins til framtíðar þannig hann væri í samræmi við umhverfisviðmið.

Hlutverk björgunarsveita mikilvægt

Í tilkynningu þjóðgarðsins í dag segir að hann sé meðvitaður um það mikilvæga hlutverk sem björgunarsveitir sinna.

Enn fremur sé skilningur á því að auk dýrmæts vinnuframlags sjálfboðaliða, liggi að baki drjúg útgjöld vegna búnaðarkaupa og aðstöðu björgunarsveita.

„Af þeim sökum hefur Vatnajökulsþjóðgarður undanfarin ár lýst sig reiðubúinn í samtal um að leita annarra leiða til fjáröflunar björgunarfélags Hornafjarðar,“ segir í tilkynningunni.

„Á þann hátt, mætti í anda nýsköpunar og sjálfbærni, ræða og þróa nýjar hugmyndir um viðburði sem myndu byggja upp nýjar hefðir við Jökulsárlón. Þar með mætti heiðra menningarlegt og félagslegt gildi svæðisins, ásamt því að stuðla að verndun og virðingu fyrir einstöku umhverfi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert