Myndskeið: Vont veður nánast alla leiðina

„Hann hefði aldrei náð landi, var að verða olíulaus og var orðinn olíulaus við það leyti sem við komum að honum.“

Þetta segir Þorbjörn Fífill Vigfússon, skipstjóri björgunarskipsins Þórs, í samtali við mbl.is en Þór er með skútu í togi sem lenti í tölu­verðum vand­ræðum djúpt suður af land­inu skömmu eft­ir miðnætti í gær­kvöldi. Verður hún dregin til Vestmannaeyja í kvöld.

Skút­an hafði lent í tölu­verðum vand­ræðum þar sem segl henn­ar rifnaði og eldsneyt­is­magnið af svo skorn­um skammti að fólkið gerði ekki ráð fyr­ir að ná til Vest­manna­eyja.

Einn úr áhöfn skútunnar er lítilsháttar meiddur en verið er að hlúa að honum, að sögn Þorbjarnar. Öll áhöfn skútunnar er á skútunni á meðan siglir Þór til Vestmannaeyja með hana í eftirdragi.

„Eins og að fara af Trapant á Teslu“

„Ég býst við að við komum að höfn um ellefu leytið, en það hefur bætt aftur í veðrið enn eina ferðina,“ segir Þorbjörn og bætir við að vont veður hafi verið alla leiðina nema örlítinn kafla út af Vík í Mýrdal.

Nýja björgunarskipið Þór hefur verið í notkun síðan 2022, en þá var hið gamla búið að sinna björgunarverkum síðan 1993.

„Eins og að fara af Trapant á Teslu,“ lýsir Þorbjörn uppfærslunni úr gamla björgunarskipinu yfir í það nýja. Hann bætir þó við að hann beri mikla virðingu fyrir gamla skipinu því það hafi verið og sé enn gott, bara ekki jafn gott og nýja.

„Miklu öflugra skip í alla staði, fer betur með okkur í sjó og það er stærra,“ bætir Þorbjörn við að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert