Á leið í land með 370 farartæki á sumardekkjum

Fólk hefur keyrt í alla nótt til að ná Norrænu …
Fólk hefur keyrt í alla nótt til að ná Norrænu sem fer frá Seyðisfirði klukkan 10.30 í dag. mbl.is/Sigurður Bogi

Ljóst er að einhver hluti þeirra sem átti bókað með Norrænu frá Seyðisfirði til Færeyja í dag mun ekki komast leiðar sinnar að þessu sinni vegna ófærðar sem hefur varað á norðaustanverðu landinu undanfarna daga. Þá eru 370 farartæki, líklega öll á sumardekkjum, á leið til landsins með ferjunni og farþegar beðnir um að staldra við á Seyðisfirði. 

Lokað hefur verið um Mývatns- og Möðrudalsöræfi síðan á mánudagskvöld vegna ófærðar en leiðin var opnuð klukkan átta í morgun. Þá hefur jafnframt verið ófært milli Hafnar og Djúpavogs síðan á mánudag en opnað var um veginn í gærkvöldi. 

Agnar Sverrisson, svæðisstjóri Smyril-Line, bindur vonir við að þeir farþegar sem missi af ferjunni í dag verði ekki margir en segir ljóst að töluvert af frakt muni ekki ná í ferjuna í dag. 

Farþegar á tæpasta vaði 

„Einhverjir voru þegar búnir að færa brottför fram í næstu viku en vonandi verða þetta ekki margir sem að komast ekki í dag,“ segir Agnar. 

Áætlað er að ferjan fari úr höfn klukkan 10.30 í dag og aðspurður segir Agnar það taka um tvær og hálfa klukkustund að aka að norðan, frá lokun Mývatns- og Möðrudalsöræfa, til Seyðisfjarðar ef allt gengur vel.  

Þannig að fólk er að koma í bæinn á slaginu? 

„Já en skipið tafðist um klukkutíma í nótt á leið til landsins sem þýðir að við verðum aðeins seinni út,“ segir Agnar en áréttir þó að áætlað sé að skipið fari klukkan 10.30.  

Hvetja fólk til að dvelja um stund á Seyðisfirði 

„Já, það eru 370 faratæki í skipinu,“ segir Agnar, spurður hvernig það muni ganga fyrir fólk að komast leiðar sinnar frá Seyðisfirði vegna færðarinnar. Hann gerir ráð fyrir að þau séu öll útbúin sumardekkjum.

Agnar kveðst þó vera búinn að senda upplýsingar á skipið um stöðuna á Fjarðarheiði og segir að Smyril-Line hvetji farþega sína til að eyða um klukkustund eða tveimur á Seyðisfirði á meðan sólbráðin er á vinna á snjónum á Fjarðarheiði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert