Alvarleg líkamsárás í undirgöngum í Árbæ

Ráðist var á drenginn í undirgöngum.
Ráðist var á drenginn í undirgöngum. mbl.is/Eggert

Ráðist var á 18 ára gamlan dreng sem var á leið úr útskriftarveislu í Árbæ um liðna helgi. 

Móðir drengsins segir í færslu á hverfissíðu Árbæjar á Facebook, að veist hafi verið að syni hennar að tilefnislausu í undirgöngum nærri Árbæjarsafni með spörkum og kýlingum.

Árásarmennirnir eru sagðir hafa verið sex talsins. Þeir hafi sparkað í höfuð, brjóstkassa og maga drengsins, meðal annars á meðan hann lá á jörðinni og gat enga björg sér veitt. Við þetta er drengurinn sagður hafa misst meðvitund.

Það varð honum hins vegar til happs að leigubílstjóri kom á vettvang og þá létu árásarmennirnir sig hverfa.

Alvarleg líkamsárás  

Valgarður Valgarðsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að málið sé til rannsóknar en árásarmanna sé enn leitað og enginn sem liggi undir grun að svo stöddu.

Valgarður segir að árásin flokkist sem alvarleg líkamsárás. Hann bætir við að samkvæmt frásögn af árásinni hafi árásarmennirnir komið í skyndi úr bíl og ráðist á drenginn.

Þá segir Valgarður að á þessari stundu bendi ekkert til þess að árásin hafi átt sér undanfara. Málið sé hins vegar í rannsókn og þetta sé meðal þess sem sé í athugun.

Atvikið kom upp skömmu eftir miðnætti á laugardagskvöld. Árásarmennirnir tóku síma drengsins og úr.

Valgarður Valgarðsson.
Valgarður Valgarðsson. Ljósmynd/Aðsend

„Ljótt og alvarlegt mál“ 

„Það er verið að skoða alla enda á þessu máli. Þetta er ljótt og alvarlegt mál sem við tökum alvarlega,“ segir Valgarður.

Hann segir hluta rannsóknarinnar meðal annars snúa að því að skoða upptökur úr eftirlitsmyndavélum.

Aðspurður segir Valgarður að slík mál séu of algeng og reglulega komi upp árásir sem eru tilefnislausar og án undanfara að því er virðist. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert