Íslenskir drengir í skólakerfinu eru í talsvert verri stöðu en drengir í nágrannalöndum okkar.
Á Íslandi nær þriðji hver drengur ekki grunnhæfni í stærðfræðilæsi eða læsi á náttúruvísindi. Þá getur annar hver drengur ekki lesið sér til gagns eftir grunnskólagöngu.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu sem Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynntu á blaðamannafundi í dag.
Tryggvi Hjaltason stóð að gerð skýrslunnar. Við gerð hennar voru tekin yfir hundrað viðtöl við hagaðila skólakerfisins og var viðamikil greining gerð á nýjum og eldri tölfræðigögnum.
Á Íslandi eru minnstar líkur á að drengir ljúki framhaldsnámi og brotfall drengja úr framhaldsskóla er mest hérlendis miðað við önnur Vesturlönd.
Slæm staða drengja í menntakerfinu er rakin aftur til barnsaldurs en málþroskaraskanir hjá drengjum hefjast oft að ungum aldri þrátt fyrir að flest börn hérlendis séu skimuð fyrir þeim. Í skýrslunni er gert grein fyrir að við níu ára aldur sé áberandi munur á kynjunum hvað varðar tungumálagetu.
Tryggvi sagði í erindi sínu að flestir kennarar sem hann hefði átt samtöl við séu einhuga um að einhver breyting hafi átt sér stað á síðustu 10 til 15 árum.
Drengir sækjast frekar í að nota enska tungu frekar en íslensku. Það þróast út í lágt sjálfstraust meðal drengja þar sem þeir eiga í frekari erfiðleikum með að tjá sig.
Tryggvi sagði í erindi sínu að þegar drengir ættu erfitt með að tjá sig leiti þeir oft í neikvæða athygli eins og að lemja frá sér eða vera með truflun í tíma. Þessi hegðun komi þar af leiðandi niður á stúlkum í kennslustundum.
Þá hafa kennarar í framhaldsskólum lýst því að ein ástæða fyrir því að brottfall drengja sé meira en hjá stúlkum sé að drengir eigi erfiðara með að tjá sig og eiga erfiðara með að skilja leiðbeiningar frá öðrum. Þeir missa þá trú og hætta frekar.
Flestir voru einnig á sama máli að það skorti karlkyns fyrirmyndir við kennslu og að fjölga þurfi karlmönnum innan kennarastéttarinnar.
Í skýrslunni eru lagðar til átta lausnir með 27 aðgerðum. Meðal lausna sem er lagt til er að efla framleiðslu að fjölbreyttara námsefni, styrkja kennarastéttina og efla hreyfingu innan skólakerfisins.
Kennarar kalla einnig eftir fjölbreyttara námsefni fyrir nemendur til að mæta ólíkri getu nemenda.
„Virkjum auðinn í drengjunum okkar, “ sagði Tryggvi við lok erindi síns.