Dúx FB segir blinduna ekki aftra sér

Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir skólameistari afhendir Theódór verðlaun.
Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir skólameistari afhendir Theódór verðlaun. Ljósmynd/HAG

Theodór Helgi Kristinsson er dúx Fjölbrautarskólans í Breiðholti en hann útskrifaðist með stúdentspróf af tölvubraut með einkunnina 9,65.

Hann hlaut flest verðlaun, þar á meðal menntaverðlaun HÍ, verðlaun fyrir íslensku, stærðfræði, ensku, spænsku og bestan árangur í tölvugreinum.

Segir blinduna ekki aftra sér

Theodór hefur verið blindur frá fæðingu en segir það ekki hafa aftrað sér í náminu. Hann segir sum fög hafa verið erfiðari sökum blindunnar og nefnir þar efnafræði, að erfitt hafi verið að lesa úr töflum sem dæmi.

Hann telur önnur fög eins og vefforritun hafa verið honum mjög auðveld enda segir hann að tölvurnar hafi alltaf verið traustustu vinir sínir.

„Ég hef ekki átt marga að í gegnum tíðina en mesta hjálpartækið fyrir okkur sem eigum í erfiðleikum, það er tæknin, tölvurnar,“ segir Theodór. 

Theódór ásamt foreldrum sínum þeim Kristni Theódórssyni og Guðrúnu Pálínu …
Theódór ásamt foreldrum sínum þeim Kristni Theódórssyni og Guðrúnu Pálínu Helgadóttur, og systur sinni Kötlu Kristínu Kristinsdóttur. Ljósmynd/HAG

Einu skrefi á undan í huganum

Theodór segist ekki hafa stefnt að því að verða dúx, heldur eigi hann mjög auðvelt með að læra. Hann segist hafa alist upp með greint fólk í kringum sig og áttað sig fljótlega á því að það væri algjörlega málið að vita það sem þarft er að vita og vera einu skrefi á undan í huganum.

„Það er náttúrulega ýmislegt sem maður getur ekki gert, ég get ekki verið skrefi á undan hvað líkamlega hluti varða og ég er talsvert aftur úr í félagslífinu líka. Ofan á það að vera blindur er ég líka á einhverfurófinu, þannig að greindin er það helsta sem ég hef,“ segir hann.

Theodór er fær píanóleikari og því var við hæfi að hann spilaði við útskriftarathöfnina á píanó. Hann hefur lært á píanó frá fjögurra ára aldri og ætlar í Menntaskólann í Tónlist í haust. Hann vill verja meiri tíma í tónlistina en stefnir á að fara að honum loknum í tölvunarfræði við Háskóla Íslands.

161 nemandi útskrifaðist

Fjölbrautaskólinn í Breiðholti útskrifaði 161 nemanda við hátíðlega athöfn í Silfurbergi, Hörpu.  Af þeim voru 51 með stúdentspróf, 42 útskrifuðust af húsasmiðabraut, 35 af rafvirkjabraut, 9 af starfsbraut, 27 sjúkraliðar og 10 af snyrtibraut.

Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir skólameistari stýrði athöfninni og Víðir Stefánsson aðstoðarskólameistari hélt yfirlitsræðu. Garðar Freyr Bjarkason og Hildur Eva Þórðardóttir héldu útskriftarræður fyrir hönd útskriftarnema. Þá söng Valdís Valbjörnsdóttir einnig við útskriftina. 

Útskriftarhópur Fjölbrautarskólans í Breiðholti.
Útskriftarhópur Fjölbrautarskólans í Breiðholti. Ljósmynd/HAG
Valdís Valbjörnsdóttir söng við athöfnina.
Valdís Valbjörnsdóttir söng við athöfnina. Ljósmynd/HAG
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert