„Eins og allt væri að fara til helvítis“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þingmaður og Siguður Ingi Jóhannson, fjármála- og …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þingmaður og Siguður Ingi Jóhannson, fjármála- og efnahagsráðherra. Samsett mynd

„Ég held að allt frá árinu 2017 þegar þessi ríkisstjórn tók við, voru þá býsna góð ár sem þá gekk á í landinu, og þá var alltaf málað hér upp eins og allt væri að fara til helvítis. Afsakið orðbragðið virðulegur forseti,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, gagnrýndi ríkisstjórnina og sagði brýnt að ráðherra gerði eitthvað í agaleysi ríkisfjármálanna.

Aðhaldssöm fjármálaáætlun og fjárlög

„Það er rangt. Kaupmáttur hefur vaxið, atvinnuleysi hefur sjaldan verið minna og í samanburði við önnur lönd er staðan hér býsna góð og horfir vænlega til næstu ára,“ sagði Sigurður. Hann sagði þó að við værum að glíma við verðbólgu og viðbrögðin væru fjármálaáætlun og fjárlög sem séu aðhaldssöm.

Þingmaðurinn spurði ráðherra hvað hann ætli að gera til að bregðast við stöðunni í efnahagslífinu sem uppi er. Jafnframt bar hún spurningu undir ráðherrann um hver skilaboð ríkisstjórnarinnar væru til venjulegs fólks.

Skilaboðin ekki svartnættisyfirlýsing þingmanns

„Skilaboðin til venjulegs fólks er ekki sú svartnættisyfirlýsing sem kom hér frá háttvirtum þingmanni,“ svaraði Sigurður Ingi við spurningu Þorgerðar.

Hann sagðist hafa hitt fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og það sé alrangt sem hún segði að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar væri að fá falleinkunn frá sjóðnum.

„Af því háttvirtur þingmaður sagði að það ólgaði sérstaklega blóðið í stjórnarliðinu vegna fallandi fylgistalna þá er það alrangt hvað þann sem hér stendur varðar. Hann hefur upplifað ýmislegt á sinni stjórnmálatíð og fer ekki á taugum þó að á móti blási,“ sagði Sigurður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert