Flestir héldu rakleiðis á heiðina

Flestir farþeganna héldu rakleiðis á Fjarðarheiði.
Flestir farþeganna héldu rakleiðis á Fjarðarheiði. Ljósmynd/Emil Theodór Guðmundsson

Allir þeir farþegar sem áttu bókað með Norrænu frá Seyðisfirði í morgun komust leiðar sinnar og héldu á haf út með farþegaskipinu rétt fyrir hádegi í dag.

Þeir sem komu til landsins með ferjunni héldu flestir rakleiðis af stað yfir Fjarðarheiði þrátt fyrir gula veðurviðvörun. 

Hluti þjóðvegarins á Norðausturlandi hefur verið lokaður vegna ófærðar undanfarna daga og um tíma var tvísýnt hvort þeir farþegar sem áttu bókað með Norrænu frá Seyðisfirði kæmust leiðar sinnar til að ná ferjunni. 

Brottför ferjunnar var þó seinkað um klukkustund og komust farþegarnir í tæka tíð til Seyðisfjarðar að undanskildum þeim sem voru þegar búnir að breyta bókuninni eða afbóka sig.

Þetta segir Agn­ar Sverris­son, svæðis­stjóri Smyr­il-Line, í samtali við mbl.is

Ekki heyrt af neinum vandræðum 

Rætt var við Agnar í morgun og kvaðst hann þá vera búinn að senda upplýsingar til skipsins um stöðuna á Fjarðarheiði, sem var á þeim tíma ekki fýsileg öðrum en vel útbúnum bílum, en Agnar gerði ráð fyrir að þau 370 farartæki sem voru um borð væru útbúin sumardekkjum. 

Spurður hvort fólk hafi eytt klukkustund eða tveimur á Seyðisfirði á meðan sólin bræddi snjóinn á Fjarðarheiði líkt og hann lagði til, svarar Agnar að hann hefði ekki fylgst nægilega vel með því. Hann kveðst þó ekki hafa heyrt af neinum vandræðum. 

Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi, staðfestir í samtali við mbl.is að allt hafi gengið vel bæði hjá þeim sem voru á leið til Seyðisfjarðar í morgun og hjá þeim sem komu með ferjunni frá Færeyjum. 

„Heiðin var meira og minna orðin auð þegar bílarnir fóru frá Seyðisfirði,“ segir Kristján og undirstrikar að allt hafi gengið vel. 

Nokkur bílaröð myndaðist á leið út úr bænum.
Nokkur bílaröð myndaðist á leið út úr bænum. Ljósmynd/Emil Theodór Guðmundsson
Einhverjir farþegar stöldruðu við á Seyðisfirði áður en þeir héldu …
Einhverjir farþegar stöldruðu við á Seyðisfirði áður en þeir héldu á heiðina. Ljósmynd/Emil Theodór Guðmundsson
Norræna kom til hafnar á tíunda tímanum í morgun.
Norræna kom til hafnar á tíunda tímanum í morgun. Ljósmynd/Emil Theodór Guðmundsson
Fjölmargir voru mættir á bryggjuna þegar Norræna silgdi inn Seyðisfjörð.
Fjölmargir voru mættir á bryggjuna þegar Norræna silgdi inn Seyðisfjörð. Ljósmynd/Emil Theodór Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert