Gefa út lista yfir vörur sem ætti að forðast

Varað er við kaupum á fötum og snyrtivörum. Mynd úr …
Varað er við kaupum á fötum og snyrtivörum. Mynd úr safni. AFP

Umhverfisstofnun hefur gefið út lista yfir vörur sem neytendur ættu að forðast þegar pantað er frá lágvörunetverslunum utan Evrópu líkt og Temu. Á listanum eru meðal annars barnaleikföng og raftæki.

„Vörur í þessum vöruflokkum eiga það sameiginlegt að líklegt er að þær innihaldi skaðleg efni og ógni öryggi neytenda. Um þær gilda því sérstök lög innan evrópska efnahagssvæðisins (EES) sem líklegt er að séu ekki uppfyllt í netverslunum utan álfunnar,“ segir á vef stofnunarinnar.

Á listanum eru nefndar vörur fyrir börn en börn séu viðkvæmari fyrir efnum sem finnist allt í kringum okkur. Rannsóknir hafi sýnt að mesta efnahættan innan þessa flokks varði mjúk plastleikföng og rafmagnsleikföng en algengt sé að í þeim séu þungamálmar og hormónaraskandi efni. Einnig eru nefnd dæmi um slím sem innihélt of mikið af bór, sem getur valdið óþægindum og fósturskaða.

Blý víða 

Snyrtivörur frá síðum sem þessum séu einnig varasamar þar sem oft sé innihaldslýsing ekki til staðar og því ómögulegt fyrir neytendur að vita hvað þeir séu að nota. Ekki sé heldur ráðlegt að nota eldhúsáhöld frá síðum sem þesum þar sem þau komist í tæri við matvæli og hita og geti skaðleg efni þá lekið úr áhöldunum í matinn.

Þá eru raftæki einnig nefnd. „Erfitt er að sjá á heimasíðu Temu hvort raf- og rafeindatæki uppfylli evrópskar öryggiskröfur sem lágmarka hættu á bruna og raflosti eða hvort þau innihaldi ólögleg skaðleg efni á borð við blý, króm eða kvikasilfur,“ segir á vef Umhverfisstofnunar.

Síðasti flokkurinn er textíll. Greint er frá því að komið hafi í ljós að mikið magn skaðlegra efna, líkt og blý, hafi fundist í klæðnaði frá Shein.

Imprað er á því að neytendur varist tilboð sem virðist of góð og muni að stunda gagnrýna hugsun áður en að kaup séu framkvæmd. Neytendur eru hvattir til þess að meta hvort um raunverulega þörf eða gerviþörf sé að ræða.

Frekari upplýsingar má finna með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert