Gyðingar á Íslandi óttaslegnir

Kafr Aza samyrkjubúið í Ísrael eftir árásina 7. október.
Kafr Aza samyrkjubúið í Ísrael eftir árásina 7. október. Ljósmynd/Birgir Þórarinsson

Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir marga gyðinga á Íslandi upplifa mikla vanlíðan í kjölfar árásar Hamas á Ísrael.

Morgunblaðið leitaði til Birgis um þetta efni eftir að viðmælendur blaðsins höfðu lýst vanlíðan gyðinga hér á landi. Hins vegar reyndust þeir ekki tilbúnir að ræða við blaðið undir nafni. Þá má nefna að minningarathöfn um helförina í pólska sendiráðinu, daginn eftir alþjóðlegan minningardag um frelsun fanga í útrýmingarbúðunum í Auschwitz-Birkenau 27. janúar 1945, var ekki öllum opin heldur eingöngu fyrir boðsgesti. Var það gert í kjölfar þess að mótmælendur veittust að Bjarna Benediktssyni, þáverandi utanríkisráðherra, í desember og kröfðust aðgerða gegn Ísrael vegna átakanna á Gasa.

Telur um 400 manns

Hafa gyðingar á Íslandi upplifað öryggisleysi undanfarið, eftir árásina 7. október? Ef svo er, hvernig birtist það?

„Ég ræddi nýverið við nokkra gyðinga búsetta á Íslandi. Mér fannst það vera skylda mín að heyra í þeim hljóðið og vita hvernig þeim liði eftir hryðjuverkaárásina 7. október á síðasta ári og hörmungarnar sem hafa fylgt í kjölfarið á Gasa.

Gyðingasamfélagið á Íslandi telur um 400 manns. Þeir sem ég ræddi við segja allir sömu söguna. Þeir eru óttaslegnir og hræddir við að segja að þeir séu gyðingar eða frá Ísrael. Ég fékk leyfi til að segja frá því hvernig þeim liði, en ég mátti ekki nafngreina þá sem ég ræddi við og þeir vildu ekki að mynd yrði birt af okkur. Þeir segjast finna fyrir vaxandi gyðingahatri hér á landi og vilja helst ekki að þeir þekkist á götu úti. Þeir passa vel upp á að ísraelski fáninn sé hvergi sýnilegur þar sem þeir eru. Það er óhætt að segja að þeir fari með veggjum.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert