Hafa komið sér saman um forgangsröðun

Búið er að samþykkja kaup á um 720 íbúðarhúsum.
Búið er að samþykkja kaup á um 720 íbúðarhúsum. Ljósmynd/Otti Rafn Sigmarsson

Náttúruhamfaratrygging Íslands (NTÍ) og Fasteignafélagið Þórkatla hafa komið sér saman um forgangsröðun mála í Grindavík. Þetta kemur fram í tilkynningu frá NTÍ

Hluti af þeim húsum sem Þórkatla hefur keypt á síðustu vikum í Grindavík hefur orðið fyrir tjóni vegna jarðhræringanna.

Búið er að samþykkja kaup á um 720 íbúðarhúsum og talsverður hluti þeirra mun þurfa að fara í gegnum tjónamat hjá NTÍ, en hluti hefur þegar farið í gegnum slíkt mat.

Þórkatla muni reka mál gagnvart NTÍ

Eins og í öðrum fasteignaviðskiptum færast réttindi og skyldur íbúðareiganda frá seljanda til kaupanda, þ.m.t. greiðsla tjónabóta þegar kominn er á skuldbindandi samningur um sölu fasteigna, segir í tilkynningunni. 

Því færist mál vegna tjóns á viðkomandi húsum yfir til Þórkötlu sem muni reka þau gagnvart NTÍ. Stjórnendur Fasteignafélagsins Þórkötlu leggi þó áherslu á að ljúka við kaupsamninga og móttöku á eignum af hálfu félagsins áður en yfirferð hefst á tjónamatsgerðum NTÍ vegna eignanna.

„Af þeim sökum mun NTÍ forgangsraða sinni vinnu til samræmis og leggja meiri þunga á að ljúka tjónamati og gerð matsgerða á öðrum eignum en þeim sem eru í söluferli til Þórkötlu. Það eru til að mynda eignir í eigu fyrirtækja og einstaklinga sem ekki geta selt eignir sínar til Þórkötlu.

Samhliða því er unnið að því að koma á föstu verklagi á milli NTÍ og Þórkötlu um kynningu matsgerða vegna eigna í eigu Þórkötlu og við uppgjör vegna þess tjóns sem á þeim hefur orðið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert