Leggja fram stórtækar hugmyndir um Brákarey

Festir kynnti í kvöld stórtækar hugmyndir um uppbyggingu í Brákarey.
Festir kynnti í kvöld stórtækar hugmyndir um uppbyggingu í Brákarey. Samsett mynd/Borgarbyggð/Festir

Fjölmennt var á íbúafundi í Borgarnesi í kvöld þar sem íbúar Borgarbyggðar fengu kynningu á tillögum að nýju rammaskipulagi fyrir Brákarey í Borgarnesi. Tillögurnar fela í sér að gamalt skipulag víki fyrir nýju og að í Brákarey verði veglegt og skjólgott miðbæjartorg þar sem ýmist verður atvinnustarfsemi, íbúðarhúsnæði, hótel og baðlón.

Tillögurnar voru lagðar fram og unnar af Festi í framhaldi af samkomulagi við Borgarbyggð um hugmynda- og skipulagsvinnu fyrir Brákarey sem var undirritað í ágúst 2022. 

Festir leiddi í framhaldinu arkitektastofurnar Studio Marco Piva, JVST, MADMA og T.Ark til samstarfsins um hönnun á svæðinu að hluta og í heild.

Teikning/Festir

Aðdráttarafl fyrir ferðamenn og upplifun fyrir heimafólk 

Það voru þeir Róbert Aron Róbertsson, framkvæmdastjóri Festi, og Þorsteinn Ingi Garðarsson verkefnastjóri hjá Festi, sem kynntu tillögurnar fyrir íbúum 

Sagði Róbert að Festir sæi fyrir sér nýtt kennileiti á Íslandi sem væri bæði aðdráttarafl fyrir ferðamenn og upplifun fyrir heimafólk að njóta. 

Teikning/Festir

Þá sagði Þorsteinn að snemma í ferlinu hefði verið lögð áhersla á að hafa ekki háreista byggð heldur frekar þétta og skjólgóða. 

Þegar Þorsteinn Ingi hafði lokið kynningu sinni var spilað myndskeið þar sem íbúar fengu að ferðast um eyjuna í þrívídd. Það mátti heyra hrifningu íbúa og mikið lófatak að myndskeiðinu loknum. 

Því næst fengu íbúar tækifæri til að spyrja spurninga og við það sköpuðust líflegar umræður. Flestir tóku vel í hugmyndina og sögðu hana spennandi á meðan aðrir höfðu áhyggjur af umfangi hugmyndarinnar. Það ber þó að taka fram að einungis er um frumhönnun að ræða sem getur tekið breytingum.

Teikning/Festir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert