Vilja selja fyrir 3,5 milljarða en leggja til kvaðir

Tveggja þrepa söluferli fyrir Perluna var samþykkt í borgarráði í …
Tveggja þrepa söluferli fyrir Perluna var samþykkt í borgarráði í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrirkomulag á söluferli Perlunnar í Öskjuhlíð var samþykkt í borgarráði í dag, en málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu Reykjavíkurborgar.

Í haust var heimilað að hefja söluferli á Perlunni sem er í eign Reykjavíkurborgar, auk tveggja vatnstanka. Áætlað er að hafa söluferlið í tveimur þrepum.

Tvö þrep söluferlis

Á fyrra þrepi verður auglýst eftir kaupendum og á því síðara verður þeim, sem uppfylla kröfur gerðar í þrepi eitt, gert kleift að leggja fram kauptilboð.

Gert er ráð fyrir að auglýsa eftir kaupendum í júní. Verður lágmarksverð þrír og hálfur milljarður króna og þurfa áhugasamir að gera grein fyrir fyrirhuguðum áformum með eignina.

Þremur kvöðum verður þinglýst á eignina.

Í fyrsta lagi kvöð um að Reykjavíkurborg hafi forkaupsrétt, í öðru lagi kvöð um að húsnæðið, bílastæði og lóð verði opið almenningi endurgjaldslaust eða gegn hóflegri gjaldtöku.

Í þriðja lagi verður kvöð um að grunnskólabörn í skólum Reykjavíkur geti heimsótt safnið sem verður rekið í húsinu, endurgjaldslaust, tvisvar sinnum á skólagöngu í fyrsta til tíunda bekk.

Veitur minna á nauðsynlegt viðhald

Veitur fara með einkaleyfi á dreifingu á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu. Þær bentu á að í öðrum tönkum sem liggja að þeim sem seldir verða er heitt vatn.

Þá vekja þær athygli á uppsafnaðri viðhaldsþörf og ríkri skyldu væntanlegs kaupanda til að ástandsmeta og viðhalda ytra byrði og burðarvirki sinna tanka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert