Einkennisklæddar lögreglukonur í 50 ár

Katrín Þorkelsdóttir, Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra, Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri, Arnþrúður …
Katrín Þorkelsdóttir, Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra, Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri, Arnþrúður Karlsdóttir, Björg Jóhannesdóttir og Bonnie Laufey Dupuis. Ljósmynd/Stjórnarráðið

50 ár eru liðin frá því að fyrstu einkennisklæddu lögreglukonurnar tóku til starfa hér á landi. Í tilefni þess ávarpaði Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra samkomu lögreglukvenna, sem haldin var á dögunum í félagsheimili Lögreglufélags Reykjavíkur.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

Fyrsta lögreglukonan hérlendis, Vilhelmína Þorvaldsdóttir, tók til starfa árið 1954, en fyrsti dagur einkennisklæddra lögreglukvenna var ekki fyrr en 30. júní 1974.

Einkennisklædd kvenlögregludeild 1974 með sér aðstöðu

Rúmum tíu árum fyrr hafði lögreglustjórinn í Reykjavík, Sigurjón Sigurðsson, borið til tals í yfirstjórn lögreglunnar í Reykjavík að koma á fót einkennisklæddri kvenlögregludeild hjá embættinu.

Hann taldi ekki annað koma til greina en að kvenlögregludeild hjá lögreglunni í Reykjavík hefði einnig aðstöðu út af fyrir sig. Árið 1974 raungerðist það en tveimur árum síðar sameinaðist deildin þó almennri löggæslu embættisins, segir í tilkynningu. 

Á meðal ræðumanna viðburðarins var Katrín Þorkelsdóttir, önnur tveggja lögreglukvenna sem klæddust einkennisfatnaði í fyrsta sinn. Hin lögreglukonan var Dóra Hlín Ingólfsdóttir, en hún lést fyrir nokkrum árum.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra með ávarp á samkomu lögreglukvenna, sem héldu …
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra með ávarp á samkomu lögreglukvenna, sem héldu upp á 50 ár af einkennisklæddum konum í embættinu. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Hlutverk lögreglukvenna mikilvægt

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra ávarpaði lögreglukonurnar þar sem hún brýndi fyrir mikilvægi þeirra á þessum vettvangi og hve mikið skilvirknin og fagmennskan hefur aukist með tilkomu kvenna í embættið.

Sagan sýnir því að samhliða auknu jafnrétti og fjölbreytileika innan lögreglunnar hefur löggæslan orðið öflugri og þjónusta við almenning betri. Innkoma kvenna í lögregluna hefur ekki einungis stuðlað að jöfnuði heldur einnig aukið skilvirkni og fagmennsku innan stéttarinnar. Konur í lögreglunni hafa sýnt ómetanlega færni, árvekni og staðfestu í að tryggja öryggi landsmanna.

Þegar við horfum til framtíðar er ljóst að hlutverk kvenna í löggæslu verður enn mikilvægara. Fjölbreytileikinn eflir lögregluna og gerir hana betur í stakk búna að takast á við síbreytilegar áskoranir nútímans. Við verðum að tryggja að konur fái áfram stuðning og tækifæri til að vaxa og blómstra í því mikilvæga starfi sem lögreglan er.

Það er minn vilji að efla stöðu kvenna enn frekar, tryggja jöfn tækifæri og stuðla að því að lögreglan verði staður þar sem allar raddir fái að heyrast og allar raddir eru metnar að verðleikum," er haft eftir dómsmálaráðherra í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert