Engar niðurstöður að fundi formannanna loknum

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir fundinn hafa verið áhugaverðan.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir fundinn hafa verið áhugaverðan. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það voru engar niðurstöður í rauninni,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í samtali við mbl.is spurð hvort hún greint frá því sem fór fram á fundi formanna stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra efndi til fundarins til að ræða hugsanlegar stjórnarskrárbreytingar.

„Við vorum að skoða til dæmis skipan í kjördæmum og kosningalöggjöfina, vægi atkvæða í kjördæmum,“ segir Inga. Þau hafi fengið sérfræðing til þess að segja þeim frá ýmsum útfærslum sem koma til greina.

Fjöldi meðmælenda kom ekki til tals

„Hann lét okkur fá allskonar hugmyndir að möguleika á því hvernig við getum jafnað atkvæðavægi með tilliti til þess að auka lýðræði og áhuga fólks á að taka þátt í kosningum,“ segir Inga.

„Þetta var áhugaverður og skemmtilegur fundur sem ég vona að skili einhverju enn þá skemmtilegra fyrir okkur öll.“

Aðspurð segir Inga það ekki hafa komið til tals að hækka fjölda meðmælenda til að bjóða sig fram í embætti forseta Íslands.

Eftir þennan fund, ertu bjartsýn á að þið komist að niðurstöðu?

„Maður er alltaf voða bjartsýnn þegar maður hittist svona,“ svarar Inga kímin.

Formenn Miðflokksins og Viðreisnar mættu ekki á fundinn og að sögn Ingu boðaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, forföll. Hún viti ekki hvers vegna Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hafi ekki mætt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert