Gripinn með milljónir í reiðufé

Maðurinn var handtekinn í Leifsstöð.
Maðurinn var handtekinn í Leifsstöð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir peningaþvætti. 

Þá var manninum gert að greiða þóknun verjanda síns sem nam 322.400 krónum.

Ávinningur af sölu fíkniefna

Í ákæru á hendur manninum segir að hann hafi tekið við samtals 49.100 evrum, því sem nemur 7,3 milljónum íslenskra króna, í reiðufé frá óþekktum aðila eða aðilum frá 23. til 26. febrúar á þessu ári. Fjármunirnir væru ávinningur af sölu og dreifingu fíkniefna og eftir atvikum öðrum refisverðum brotum.

„Með háttsemi sinni móttók ákærði ávinning af refsiverðum brotum, geymdi ávinninginn, flutti og leyndi ávinningnum og upplýsingum um uppruna, eðli, staðsetningu og ráðstöfun hans,“ segir í ákærunni.

Lögreglan fór fram á að maðurinn yrði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þá var þess krafist að evrurnar yrðu gerðar upptækar með dómi og varðveittar á bankareikningi lögreglustjórans á Suðurnesjum. 

Skýlaus játning

Maðurinn var handtekinn í Leifsstöð 26. febrúar þar sem hann var á leið í flug með evrurnar í fórum sínum. Hann játaði sök í málinu og samþykkti upptökukröfur lögreglu. 

Verjandinn fór fram á að manninum yrði dæmd vægasta refsing sem lög leyfðu.

Í dómnum segir að með skýlausri játningu þyki sannað að maðurinn hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru.

Var við ákvörðun refsingar litið til þess að maðurinn hefði játað brotið en á hinn bóginn hefði hann verið með umtalsverða fjármuni meðferðis við handtöku.

Átta mánaða fangelsi

Var maðurinn dæmdur í átta mánaða fangelsi.

Í dómnum segir að fullnustu sex mánaða af refsingunni skuli frestað og hún látin falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð. 

Frá refsingu skuli draga að fullri dagtölu gæsluvarðhald sem hann sætti 27. febrúar til 12. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert