Uppfært hættumat: Gasmengunar gæti orðið vart

Eldgos við Sundhnúkagígaröðina hefur staðið yfir í níu daga.
Eldgos við Sundhnúkagígaröðina hefur staðið yfir í níu daga. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Áfram er virkni í einum gíg sem helst nokkuð stöðug í eldgosinu í Sundhnúkagígum. Hraun rennur að mestu til norðvesturs og þá er land hætt að síga í Svartsengi. Gasmengunar gæti orðið vart í Grindavík.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofunnar. 

Fyrstu dagana eftir að eldgosið hófst mældist landsig í Svartsengi sem benti til þess að meira magn kviku flæddi úr kvikusöfnunarsvæðinu og upp á yfirborð heldur en flæddi inn í það af dýpi.

„Aflögunarmælingar undanfarna daga sýna að landsig virðist hafa stöðvast og því líklegt að flæði kviku frá dýpi inn í kvikusöfnunarsvæðið sé núna sambærilegt því sem er á yfirborði í Sundhnúksgígaröðinni,“ segir í tilkynningunni. 

Hraunbreiðan 8,6 ferkílómetrar

Níu dagar eru síðan að eldgosið hófst og frá því 4. júní hefur aðeins einn gígur verið virkur.  Hraun frá honum rennur að aðallega til norðvesturs í átt að Sýlingarfelli þar sem hraunbreiðan þykknar, en þaðan eru virkir hraunstraumar norður fyrir Sýlingarfell.

Flatarmál hraunbreiðunnar er orðið 8,6 ferkílómetrar og rúmmál um 36 milljón rúmmetrar. Þetta er byggt á gögnum sem myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga hafa unnið úr, sem sérfræðingar Eflu, Verkís og Svarma söfnuðu í drónaflugi yfir gosstöðvarnar þann 3. júní. 

Ekki mælingar til um núverandi hraunflæði

„Út frá þessum mælingum er áætlað meðalhraunflæði frá eldgosinu frá því síðdegis 29. maí til 3. júní um 30 m3/s. Þessar niðurstöður eru byggðar á gögnum sem ná yfir um 70% af hraunbreiðunni en gert er ráð fyrir því að ekki hafi orðið markverðar breytingar á hraunbreiðunni utan þess svæðis á milli mælinga.

Eftir að þessar mælingar voru gerðar varð sú breyting á virkni gossins að virkum gígum fækkaði og einn gígur hefur verið virkur síðan 4. júní. Ekki eru til mælingar á hraunflæði síðan þá, en til samanburðar var hraunflæði frá síðasta eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni áætlað um 3-4 m3/s þegar einn gígur var virkur,“ segir í tilkynningunni. 

Gasmengunar gæti orðið vart í Grindavík

Veðurspá gerir ráð fyrir norðanátt í dag og á morgun. Gasmengun berst því til suðurs og hennar gæti orðið vart í Grindavík.

„Enn er talsverð óvissa með magn gastegunda frá gosstöðvunum,“ segir í tilkynningunni. 

Hægt er að fylgjast með rauntímamælingum ýmissa gastegunda á vefnum loftgaedi.is og gasdreifingarspá Veðurstofunnar.

Öðruvísi efnasamsetning en venjulega

Eins og greint hefur verið frá þá mældist í fyrsta skipti, síðan eldgosavirkni hófst í Sundhnúksgígaröðinni í desember 2023, landsig í Svartsengi á meðan eldgosi stendur.

Í gær birti Jarðvísindastofnun Háskólans fyrstu berg- og jarðefnafræðigögn frá yfirstandandi eldgosi og sýna gögnin að efnasamsetning kvikunnar sem nú kemur til yfirborðs sé ólík þeirri sem hefur komið upp í síðustu fjórum eldgosum á Sundhnúksgígaröðinni.

Þó líkist þetta kvikunni frá byrjun eldgossins í Geldingadölum 2021.

„Þessar niðurstöður eru merki um að kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi sé að breytast. Að svo stöddu er ekki hægt meta nákvæmlega hvers konar breytingar eru í gangi, en á næstunni verður fleiri gögnum safnað og þau rýnd til að reyna að varpa ljósi á þær,“ segir í tilkynningunni. 

Hættumat að mestu óbreytt

Hættumat hefur verið uppfært í ljósi þróunar á eldgosinu og veður- og gasdreifingarspár. Hættumat er að mestu óbreytt, en svæði 7 hefur verið fært af gulu upp í appelsínugult vegna mögulegrar gasmengunar.

Kortið gildir að öllu óbreyttu til 13. júní.+

Tölvuteiknuð mynd/Veðurstofan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert