Ánægð með aðsókn drengja í HR

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, er ánægð að …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, er ánægð að sjá fleiri karlmenn sækja um nám í háskólum á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er ótrúlega ánægð að sjá þessar tölur. Það er mikið gleðiefni að við erum að sjá aukinn áhuga á að koma í háskóla, sérstaklega meðal stráka.“

Þetta segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í samtali við mbl.is innt eftir viðbrögðum við því að metfjöldi umsókna hafi borist Háskólanum í Reykjavík og að meirihluti þeirra hafi verið frá karlmönnum.

„Við erum að sjá þegar við berum okkur saman við önnur lönd að strákarnir okkar eru ekki að skila sér í sama mæli í háskóla og við erum að mennta færri úr háskólum en önnur lönd,“ segir Áslaug.

Það eigi sérstaklega við um STEM-greinar sem eru raunvísinda- og tæknigreinar.

Almennur áhugi á háskólum

„Við sjáum það í þessum tölum að það er aukning í þær [STEM-greinar] sem Háskólinn í Reykjavík kennir,“ segir Áslaug.

„Það er mikilvægt bæði því okkur vantar og mun vanta sérfræðinga á þeim sviðum og það skiptir miklu máli fyrir verðmætasköpun og samkeppnishæfni Íslands.“

Spurð hvort það sé hægt að draga einhverjar ályktanir af því að metfjöldi umsókna berist skólanum í kjölfar þess að hann hafnaði tilboði ráðherra um að fella niður skólagjöld gegn hærri framlögum ríkisins svarar hún að það sé ekki einsýnt.

„Ég vona, og sýnist, þetta vera svona í öllum háskólum – að það sé almennur áhugi á háskólum,“ segir Áslaug.

Hún bendir á að í fyrra hafi verið 13% aukning karlmanna sem sóttu um nám í Háskóla Íslands. Þá hafi Listaháskóla Íslands borist tvöfalt fleiri umsóknir í ár en árið áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert