Gengið ágætlega að slökkva gróðureldana

Einar Sveinn Jónsson segir slökkviliðsmennina reyna að hvíla sig á …
Einar Sveinn Jónsson segir slökkviliðsmennina reyna að hvíla sig á nóttunni. mbl.is/Eyþór

Slökkviliðinu í Grindavík hefur gengur sæmilega að halda gróðureldum vegna eldgossins við Sundhnúkagíga í skefjum en sums staðar kemst slökkviliðið ekki að eldunum.

„Okkur gengur svo sem ágætlega,“ segir Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri Grindavíkur, í samtali við mbl.is.

„Það fylgir þessari þurrkatíð að það eru gróðureldar, jörðin er mjög heit og hraunið vellur í nokkrar áttir. Við erum bara í varnarbaráttu að missa þetta ekki úr böndunum,“ segir Einar.

Þá séu stórvirkar vinnuvélar að hjálpa slökkviliðinu að rjúfa brunarendur til að halda gróðureldunum í skefjum.

Hefðu gott af snjónum á Norðurlandi

Hvað eru þið búnir að vera lengi að vinna í þessu?

„Í raun frá því að það hætti að rigna. Þegar rignir ekki þá eru gróðureldar þannig síðustu daga hefur þetta verið upp á hvern einasta dag,“ svarar Einar. Gróðureldar séu víðast hvar í kringum hrauntunguna.

„Sums staðar komumst við ekki að,“ segir Einar.

Núna eru slökkviliðsmenn að störfum í Svartsengi.

„Það fóru nokkrir hraunmolar yfir varnargarðinn og við erum að takast á við að það berist ekki innan landssvæðisins innan varnargarðsins,“ segir Einar en að það sé enginn verkefnaskortur hjá slökkviliðinu.

Gróðureldur frá því á síðasta ári við gosstöðvarnar við Litla-Hrút.
Gróðureldur frá því á síðasta ári við gosstöðvarnar við Litla-Hrút. mbl.is/Árni Sæberg

„Við gætum alveg notað smá snjó sem mínir gömlu sveitungar á Norðurlandi og Dalvíkingar fengu, við gætum alveg notað smá snjó,“ segir Einar kíminn.

Hefur það mikil áhrif á ykkar störf að hraun er farið yfir Grindavíkurveg?

„Það lengjast allar leiðir inn í bæinn fyrir bjargir. Við vorum komnir með stutta leið inn en núna er Grindavíkurvegurinn alveg farinn,“ segir hann. Það hafi þó ekki mikil áhrif til að byrja með.

Eru þið að vinna allan sólarhringinn að þessu?

„Nei, við reynum að hvíla mannskapinn á nóttunni,“ svarar Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert