Gert ráð fyrir að lækna einstaklinga með parkinson

Arnar Ástráðsson, heila- og taugaskurðlæknir.
Arnar Ástráðsson, heila- og taugaskurðlæknir. mbl.is/Arnþór Birkisson

Arnar Ástráðsson, heila- og taugaskurðlæknir, vinnur að rannsóknum á lækningu við parkinsonssjúkdómnum. Hann hefur starfað sem heila- og taugaskurðlæknir í Danmörku, Bretlandi og á Nýja-Sjálandi og stundar vísindarannsóknir í Bandaríkjunum. Nú vinnur hann á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn. Eftir hann liggur fjöldi vísindagreina og bókakafla um heila- og taugaskurðlækningar og doktorsritgerð.

Auk þess að sinna læknisstörfum vinnur hann að rannsóknum á parkinsonssjúkdómnum.

Arnar vinnur á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn.
Arnar vinnur á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn. mbl.is/Arnþór

„Á árunum 2006-2008 var ég í fullu starfi við þær rannsóknir við Harvard-háskólann í Boston. Síðan hef ég verið þar í hlutastarfi og farið tvisvar til þrisvar sinnum árlega til Boston til að sinna rannsóknunum. Það er spennandi að taka þátt í þessum rannsóknum. Þessi ár í Boston, þar sem mikill árangur náðist, hafa verið skemmtilegustu árin á mínum starfsferli.

Rannsóknarteymið sem ég starfa með í Harvard er sérstakt að því leyti að við ákváðum að nota eigingerðar frumur til ígræðslu við parkinsonsveiki þar sem sjúklingur fær ígræddar frumur sem unnar eru úr honum sjálfum, og því þarf ekki að beita ónæmisbælandi meðferð. Við höfum nýtt aðferð sem var þróuð í Japan árið 2006. Hún byggist á því að framleiða stofnfrumur úr fullorðinsfrumum úr húð eða blóði, með erfðafræðilegri endurforritun. Við vorum fyrsti hópur í heimi sem tókst að lækna tilraunadýr af parkinsons með slíkum eigingerðum stofnfrumum. Þökk sé mjög jákvæðum niðurstöðum úr dýrarannsóknum okkar fékkst nýlega leyfi til að hefja rannsóknir á mönnum í Boston. Í byrjun munu sex sjúklingar sem þjást af parkinsonsveiki gangast undir heilafrumuígræðslu með eigingerðum frumum.“

Hvaða líkur eru á bata?

„Ef við förum þrjá áratugi aftur í tímann þá vitum við að rannsóknir sem hófust í Lundi í Svíþjóð sýndu að hægt var að lækna parkinsonsveiki með því að græða í sjúklinga heilafrumur sem fengnar voru úr fósturvef. Mörgum sjúklingum batnaði eftir þá aðgerð. Svipaðar niðurstöður fengum við síðar í samvinnu við Háskólasjúkrahúsið í Halifax, Kanada, þar sem mörgum sjúklingum með parkinsons, sem gengist höfðu undir fósturfrumuígræðslu, batnaði. Auk þess sýndum við fram á að frumurnar voru óskemmdar og höfðu ekki orðið sjúkdómnum að bráð. Ígræðsla á fósturfrumum er hins vegar ekki lengur talin sjálfbær né fýsileg. Til framtíðar þarf að þróa aðferð sem er sjálfbær. Þess vegna var farið að rannsaka þessa meðferð með stofnfrumum. Þá eru notaðar stofnfrumur, annaðhvort fósturstofnfrumur úr fósturvísum eða stofnfrumur sem eru unnar úr fullorðinsfrumum. En stofnfrumur eru óþroskaðar frumur sem er hægt að beisla til að verða að hverri þeirri frumugerð líkamans sem þörf er á.

Við gerum ráð fyrir að lækna þessa sex einstaklinga sem fara í ígræðsluna á þessu ári. Það líður kannski eitt og hálft ár þar til endanlegur árangur kemur í ljós. Við búumst við að hann verði góður og byggjum það á dýratilraunum okkar með stofnfrumur og árangrinum með fósturfrumur í Svíþjóð og Kanada. Við búumst ekki við að árangurinn verði síðri en þar. Síðar verður fleiri sjúklingum bætt við í rannsóknina.

Ég myndi ætla að innan fimm ára verði hægt að bjóða íslenskum sjúklingum upp á þessa meðferð. Það er samt mikilvægt að ítreka að enn sem komið er erum við einungis að lækna hreyfieinkenni parkinsons. Á seinni stigum parkinsonsveiki geta líka komið fram andleg og vitræn einkenni og einkenni frá ósjálfráða taugakerfinu. Enn hefur ekki verið hægt að laga það með frumuígræðslu, en það mun vonandi gerast síðar. Það má þó geta þess að víða er einnig verið er að rannsaka heilafrumuígræðslu við vitrænum heilasjúkdómum eins og alzheimer.“

Ítar­legt viðtal er við Arnar í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins um helg­ina.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert