Lokast hafi fyrir hraunflæði að sunnanverðu

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur.
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur. mbl.is/Arnþór Birkisson

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur telur aukninguna í hraunflæði sem varð í dag í eldgosinu við Sundhnúkagíga orsakast af því að lokast hafi fyrir hraunflæði úr gígnum að sunnanverðu.

Þetta skrifar eldfjallafræðingurinn í færslu á Facebook-síðu Rannsóknareiningar í eldfjallafræði og náttúruvá hjá Háskóla Íslands.

Þorvaldur segir þróunina á hraunflæðinu fyrr í dag vera áhugaverða en þegar hrauntaumur sem lá norðan við Sýlingarfell tók kipp í morgun flæddi yfir Grindavíkurveg norðan Svartsengis í dag.

Jafnframt tæmdist hraunpollur efst í hraunánni sem liggur í suður frá gígnum við Hagafjall.

„Og þess vegna tæmist pollurinn“

„En þessi tæming getur ekki verið orsökin fyrir aukningunni á hraunflæðinu norðan við Sýlingafell! Einfaldlega vegna þess að pollurinn tæmdist til suðurs eftir hraunafarveginum sem liggur í þá áttina, en hraunafarvegurinn sem fæðir hrauntauminn norðan við Sýlingafell liggur til norðurs frá gígnum,“ skrifar Þorvaldur.

Hann telur þess vegna að breytingin í hraunflæðinu hafi orsakast af breytingum og aðlögun á aðstæðum í gígnum.

Hann telur líklegugstu sviðsmyndina vera að lokast hafi fyrir flæði út úr gígnum að sunnanverðu, a.m.k. tímabundið. „Og þess vegna tæmdist pollurinn,“ skrifar Þorvaldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert