Umsóknum fjölgar um 10% milli ára

Aðalbygging Háskóla Íslands.
Aðalbygging Háskóla Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Háskóla Íslands bárust rúmlega 9.200 umsóknir um grunn- og framhaldsnám fyrir næsta skólaár. Umsóknum í grunnnám fjölgar um 10% milli ára og tæpum 8% í framhaldsnámi. 

Í tilkynningu kemur fram að í fyrra fjölgaði umsóknum milli ára um 6% og er haft eftir Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, að gleðilegt sé að sjá að umsóknum hafi fjölgað tvö ár í röð. 

„Þessi mikla aukning í umsóknum er afar ánægjuleg og ber vott um það ótvíræða traust sem almennt er borið til Háskóla Íslands.“ 

Hugvísindasvið vinsælast 

Alls bárust skólanum 5.085 gildar umsóknir um grunnnám og fjölgar umsóknum í langflestum deildum skólans milli ára.

Hugvísindasviði bárust flestar umsóknir allra sviða til grunnáms, eða rúmlega 1.450 umsóknir. Íslenska var vinsælasta greinin innan hugvísindasviðs, en alls bárust 800 umsóknir til náms í íslensku sem annað mál, annað hvort til BA-náms eða eins árs hagnýtt nám í greininni. 

Umsóknir um framhaldsnám við Háskóla Íslands reyndust 4.142 og fjölgar um tæp 8% milli ára. Flestar umsóknir bárust til félagsvísindasviðs eða 1.513 umsóknir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert