Hugmyndirnar „eins og klipptar úr Hollywood–mynd“

Festir fasteignaþróunarfélag kynnti stórtækar tillögur að skipulagi í Brákarey fyrir …
Festir fasteignaþróunarfélag kynnti stórtækar tillögur að skipulagi í Brákarey fyrir heimamönnum á fimmtudagskvöld. Mynd/Festir

Tillögur Festi fasteignaþróunarfélags að nýju ramma­skipu­lagi fyr­ir Brákarey í Borg­ar­nesi fengu almennt góðar viðtökur hjá íbúum í Borgarbyggð og atvinnurekendum í Brákarey. Einhverjir segja löngu kominn tíma til að ráðast í aðgerðir í eyjunni á meðan aðrir hafa sínar efasemdir og velta fyrir sér hvernig málið verði unnið. 

Blaðamaður mbl.is ræddi við nokkra íbúa á svæðinu að loknum íbúafundi í Hjálmakletti á fimmtudagskvöld þar sem íbúar fengu kynningu á skipulaginu. Til­lög­urn­ar fela í sér að gam­alt skipu­lag víki fyr­ir nýju og að í Brákarey verði veg­legt og skjólgott miðbæj­ar­torg þar sem ým­ist verður at­vinnu­starf­semi, íbúðar­hús­næði, hót­el og baðlón.

„Eyjan þarf alveg andlitslyftingu“

Meðal viðmælenda voru þeir Hansi og Geiri, eða Hans Egilsson og Sigurgeir Erlendsson bakari, sem báðir hafa verið búsettir í Borgarbyggð til fjölda ára. Þeir félagar sögðust bjartsýnir á hugmyndina og voru sammála um að eyjunni veitti ekki af smá andlitslyftingu. 

„Ég er nú fæddur og uppalinn hérna í Borgarnesi og hef séð svona tímana tvenna í þessu. Eins og staðan er í dag þá er þetta afskaplega freistandi að gera eitthvað þarna. Eyjan þarf alveg andlitslyftingu. Hvort það akkúrat verði þetta, en ég er mjög hrifin af þessum hugmyndum sem eru þarna,“ sagði Hansi og bætti við að framkvæmdin yrði lyftistöng fyrir héraðið.  

Félagarnir Hansi og Geiri.
Félagarnir Hansi og Geiri. mbl.is/Klara Ósk

„Það náttúrulega þarf að fara að gera eitthvað“

„Ég er alveg sammála Hansa,“ sagði Geiri og bætti við: 

„Þetta er náttúrulega bara spurning um að gera eitthvað. Þetta er bara til skammar eins og þetta er núna. Það er búið að loka öllum húsunum og menn mega ekki klára að gera það sem þeir eru með þarna inni.“

Vísar Geiri til þess að árið 2021 var nær öllu húsnæði Borgarbyggðar í Brákarey lokað vegna alvarlegra athugasemda eldvarnareftirlits og byggingafulltrúa. 

„Það er til dæmis einn vinur okkar sem er þarna með stærðarinnar snekkju og fær ekkert að vinna í henni. Þetta er náttúrulega hlutur sem þarf að klárast, koma þessu í burtu og semja við þá sem eiga eitthvað þarna.“ 

Nú er þetta ekki í fyrsta sinn sem rætt er um hugmyndir að uppbyggingu á eyjunni. Ertu bjartsýnn á að hugmyndin nái fram að ganga í þetta sinn?

„Eigum við ekki bara að vona að það verði. Hvort sem það verði í þessari mynd eða eitthvað nálægt þessu. Það náttúrulega þarf að fara að gera eitthvað, það þarf að fara að hreinsa til þarna.“ 

„Þetta er of fínt fyrir mig“

Júlía Lind Sigurðardóttir, nemi í Menntaskóla Borgarfjarðar og starfsmaður hjá Borgarverk, var meðal fundargesta, en Júlía er búsett skammt fyrir utan Borgarnes. Spurð hvað henni fyndist um hugmyndirnar sagði hún þær heldur framsæknar og ekki alveg í anda Borgarness.

„Kannski smá óraunhæfar hugmyndir.“

Gætir þú hugsað þér að búa á eyjunni ef þér gæfist kostur á því? 

„Nei eiginlega ekki, þetta er of fínt fyrir mig,“ sagði Júlí, sem kvaðst aftur á móti alveg geta hugsað sér að búa í eyjunni ef hugmyndirnar væru aðeins huggulegri. „Ekki eins og klipptar úr Hollywood–mynd.“ Þrátt fyrir það segist hún spennt að fylgjast með framgangi mála. 

Júlíu fannst hugmyndirnar kannski aðeins óraunhæfar.
Júlíu fannst hugmyndirnar kannski aðeins óraunhæfar. Mynd/Festir

„Ég lifi það nú aldrei, ég er svo gamall sko“

Sæmundur Sigmundsson, rútubílstjóri, hefur verið búsettur í Brákarey um árabil og hefur jafnframt gert út atvinnustarfsemi frá eyjunni. 

„Ég bý þarna og líður vel,“ svaraði Sæmundur spurður hvað honum hafi fundist um þær hugmyndir sem lagðar voru fram. Inntur eftir frekari svörum sagði Sæmundur:

„Mér lýst ekki nógu vel á þetta. Þetta er svo mikið mál að kaupa allt upp þarna, öll þessi fyrirtæki og hús. Það er ekki gert á einu kvöldi.“

Eru hugmyndirnar sem voru settar fram hér í kvöld ekki alveg það sem þú hafðir séð fyrir þér?

„Nei eiginlega ekki. Mér finnst þetta of mikil bjartsýni. Það er svo dýrt að rífa hús í dag, steinhús verður bara að mylja niður og týna allt járn úr og sortera. Þetta er stórmál og kostnaður sem menn gera sér ekki grein fyrir.“

Sæmundur Sigmundsson rútubílstjóri.
Sæmundur Sigmundsson rútubílstjóri. mbl.is/Klara Ósk

En hefur eitthvað verið rætt við ykkur sem þarna búið í þessu ferli? 

„Já það er búið að ræða við mig og ég vil selja mitt. Það er búið að koma og skoða það af bæjaryfirvöldum. Það þarf ekkert annað en að semja og þá get ég bara labbað út. Ég bíð eftir því bara.“ 

Gætir þú hugsað þér að kaupa í nýrri byggð?

„Ég lifi það nú aldrei, ég er svo gamall sko.“

Leggur áherslu á að horft verði til veðuraðstæðna

„Mér lýst mjög vel á þessar hugmyndir. Fyrst og fremst finnst mér jákvætt að það eigi eitthvað að fara að gerast í eyjunni, sagði Jónína Erna Arnardóttir Borgnesingur í samtali við mbl.is.

„Eina sem ég var að hafa áhyggjur af, eins og kom fram hjá mér áðan, er að ég held að það ættu að vera fleiri íbúðir og færri þjónusturými,“ sagði Jónína sem var meðal þeirra sem varpaði fram spurningum á fundinum. 

Jónína hefði jafnframt vilja sjá að tillagan hefði tekið meira mið af veðurfari og bindur vonir við að hótelið verði hannað þannig að gestir geti sofið á nóttunni í verstu veðrunum. 

„Það er oft gott veður í eyjunni en það er líka oft dálítið vont veður,“ sagði Jónína og lagði áherslu á að horft verði til þess. 

Jónína Erna Arnardóttir Borgnesingur.
Jónína Erna Arnardóttir Borgnesingur. mbl.is/Klara Ósk

Nú voru settar fram framsæknar hugmyndir um atvinnustarfsemi í eyjunni. Bæði verslanir, veitingastaðir, hótel og baðlón svo eitthvað sé nefnt, hvernig lýst þér á það í ljósi þess að atvinnustarfsemi hefur ekki alltaf náð fótfestu í bænum?

„Ef hótelið verður sterkt vörumerki þá kemur fólk á hótelið, mun borða á veitingastaðnum og væntanlega versla í einhverjum af þessum verslunum. En eins og ég nefndi með Brákarbrautina, þar átti að vera þjónusturými á neðri hæðunum og það gekk aldrei,“ sagði Jónína og vísaði til húsnæðis sem reist var nærri Brákarey fyrir um áratug síðan. 

„Ég held að maður þurfi að vera bara svolítið raunhæfur.“ 

Ósammála því að allt sé í niðurníðslu

Hilmir Auðunsson pípari er meðal þeirra sem er með atvinnustarfsemi í Brákarey. Hann sagði sjálfsagt að vinna með Borgarbyggð að verkefninu en kvaðst ósammála þeirri orðræðu að allt væri í niðurníðslu í eyjunni. 

„Byggingarnar sem eru áberandi mest í niðurníðslu eru á hendi Borgarbyggðar. Það eru ekki byggingarnar sem eru í eigu fyrirtækja og einstaklinga í eyjunni, þó þær séu misgóðar,“ sagði Hilmir og útskýrði að frá árinu 2017 hafi fyrirtæki hans varið 25 milljónum í uppbyggingu á húsnæði sínu á eyjunni. 

„Þegar ég kaupi þarna út frá þá var það af smá nauð því það var ekkert annað, ég ætlaði að vera með starfsemi hér [í Borgarnesi] og mig vantaði húsnæði. Á þeim tíma þá eru einhverjir aðilar með einhver áform um að kaupa húsnæði í eyjunni og byggja upp. Það hefði verið tilvalinn tími til þess að ráðast í verkefni sem þetta, en einhverra hluta vegna þá sprakk það og ekkert skeði.“

Hilmir kvaðst ekki vera sá eini sem hefur staðið að uppbyggingu á núverandi húsnæði í eyjunni á síðustu tíu árum og nefndi sem dæmi að Borgarverk hefði svo gott sem endursmíðað skemmu í eyjunni á síðustu árum. 

„Og þetta er að fara, þetta er nýtt hús. Það er allt nýtt inni í húsunum.“ 

„Smeykur um hvernig þeir ætla að fara að þessu“

Hvað viltu frekar sjá að verði gert?

„Ég vil ekki neitt frekar sjá eitthvað gert. Maður er bara smeykur um hvernig þeir ætla að fara að þessu. Ætla þeir að kaupa lélegasta húsið og nota það sem eitthvað viðmið fyrir það verð sem þeir ætla að borga?“ 

Þá sagði Hilmir kostnað við að flytja núverandi starfsemi úr eyjunni í önnur húsnæði geta hlaupið á milljónum. Enda ekki hlaupið að því að tæma húsnæði sem hefur haldið utan um fjölbreytta atvinnustarfsemi í áraraðir. 

Það er þó sama hvernig fer, Hilmir segist ákveðinn í því að halda atvinnustarfsemi sinni áfram í Borgarbyggð og kveðst vera kominn með lóð annars staðar í bænum. 

Það var mikill fjöldi fólks sem mætti til íbúðafundarins.
Það var mikill fjöldi fólks sem mætti til íbúðafundarins. mbl.is/Theódór Kristinn Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert