„Nálgast núllpunktinn í lok ágúst“

Hraun rann yfir Grindavíkurveg í gær.
Hraun rann yfir Grindavíkurveg í gær. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Miðað við þróun eldgossins á Sundhnúkagígaröðinni má gera ráð fyrir að eldsumbrotunum ljúki seint í sumar, að mati eldfjallafræðings.

„Við getum gert okkur einhverjar vonir um að kannski verði þetta bara búið núna í lok sumars,“ segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur í samtali við mbl.is um eldgosið sem stendur yfir.

Gos­virkni held­ur áfram í ein­um gíg við Sund­hnúkagígaröðina. Í gærmorgun jókst hraunstreymið norður fyr­ir Sýl­ing­ar­fell með þeim afleiðingum að Grindavíkurvegur fór undir hraun í þriðja skiptið.

„Þetta gerðist nokkrum sinnum í gær. Hrauntjörnin tæmdi sig og fylltist síðan aftur, það gerðist alla vega þrisvar sinnum frá klukkan níu til þrjú,“ segir Þorvaldur.

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur.
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur. mbl.is/María

„Einhverjar breytingar í gangi inni í gígnum“

Þorvaldur hefur sagt líklegt að orsök aukins hraunflæðis frá eldgosinu í gær sé sú að lokast hafi fyrir hraunstreymi úr gígnum að sunnanverðu. Hann telur slíkt hið sama geta gerst að norðanverðu, sem myndi þýða að hraunstreymi myndi einnig aukast í suðurátt.

„Það er alveg augljóst að það eru einhverjar breytingar í gangi inni í gígnum. Það getur alveg verið að það loki fyrir og svo gæti það virkað í hina áttina og lokað fyrir norðanmegin og þá aukið hraunstreymi í gegnum rásina til suðurs.“

Þorvaldur segir þetta geta spilað rullu í því hvernig hraunið byggir sig upp og hversu langt það nær.

Varnargarðarnir verja lónið

Bláa lónið lokaði í gærmorgun áður en fyrstu gestir mættu. Lónið hyggst opna dyr sínar að nýju á miðvikudag að öllu óbreyttu.

Bláa Lónið hyggst opna á miðvikudaginn, telur þú það öruggt?

„Það er aldrei öruggt, en ég held að það sé allt í lagi, varnargarðarnir halda alveg held ég, þetta er ekki það mikið flæði, það fer ekkert að fylla lægðina við Svartsengi,“ svarar hann. 

En er Svartsengisvirkjun í einhverri hættu?

„Ekki meiri en undanfarið. Þetta verður erfiðara og erfiðara eftir því sem þessir atburðir standa lengur yfir, það bunkast upp meira og meira hraun og það eru takmörk fyrir því hversu háa varnargarða við getum byggt.“

Virðist hægja á sér

„Mér sýnist á öllu þegar ég skoða gögnin að þetta sé að hægja á sér og ég held mig við þá spá að seinnipart sumars þá sé þetta búið,“ segir Þorvaldur spurður um hugsanleg goslok.

Eldfjallafræðingurinn bendir á að gosið hafi byrjað með miklum látum og samhliða því hafi land sigið í einhvern tíma.

„Það er eins og kvikugeymslan undir Svartsengi, þetta grynnra geymsluhólf hafi haldið áfram að kreista út úr sér og það er möguleiki að það sé lokað, þannig að fæðið sé að koma beint upp,“ útskýrir hann.

Þá bendir Þorvaldur einnig á land sé ekki tekið að rísa eins hratt og gerst hefur í fyrri eldsumbrotum, sem sé vísbending um að innflæði í grynnri kvikuganginn undir Svartsengi sé að minnka.

„Þá endar með því að það getur ekki haldið kvikurásinni opinni, hún lokast og þá hættir þetta,“ segir hann.

„Ég reiknaði þetta fyrir einhverjum tíma síðan og það eru náttúrulega fullt af óvissum í því og maður getur ekki sagt nákvæmlega fyrir um, en ef flæðið að neðan heldur áfram að hægja á sér eins og það hefur verið að gera þá ætti að vera nálgast núllpunktinn í lok ágúst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert