Þremur sleppt úr haldi og Polar Nanoq siglt á brott

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú meint kynferðisbrot í Hafnarfirði.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú meint kynferðisbrot í Hafnarfirði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þremur mönnum hefur verið sleppt úr haldi í tengslum við kynferðisbrot sem er sagt tengjast skipverja um borð á grænlenska togaranum, Polar Nanoq. 

Í samtali við mbl.is staðfesti Grím­ur Gríms­son, yf­ir­lög­regluþjónn miðlægr­ar rann­sókn­ar­deild­ar lög­reglu, að rannsókn standi enn yfir á kynferðisbrotamáli en vildi þó ekki staðfesta að málið tengdist tilteknu skipi. Hann staðfestir þó að mennirnir þrír séu erlendir og ekki búsettir á Íslandi.

Spurður hvort einhverjir þeirra hafi áður komist í kast við lög á Íslandi kvaðst Grímur ekki getað tjáð sig um það enda sé venjan almennt ekki sú að ræða kynferðisbrotarannsóknir á meðan þær séu enn í gangi. 

Á leið til Grænlands

Ríkisútvarpið hefur aftur á móti greint frá í fréttaflutningi sínum að skipverji á Polar Nanoq hafi verið handtekinn og sleppt úr haldi.

Það er ekki í fyrsta sinn sem togarinn er tengdur við ofbeldisglæp hér á landi en skip­verjinn Thom­as Møller Ol­sen, var dæmdur fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur árið 2017. 

Samkvæmt sjóumferðar-vefsíðunni Marine Traffic lagði Polar Nanoq úr bryggju í Hafnarfirði klukkan 23:19 í gærkvöldi og er nú leið til Grænlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert