„Eitthvað erum við að gera rétt“

Tilvonandi vísindamenn fengu að spreyta sig á efnafræðitilraunum í Háskóla …
Tilvonandi vísindamenn fengu að spreyta sig á efnafræðitilraunum í Háskóla unga fólksins í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við urðum alltaf bara vinsælli og vinsælli, þannig eitthvað erum við að gera rétt og skólinn hefur bara vaxið og dafnað síðan 2004,“ segir Kristín Ása Einarsdóttir, skólastjóri Háskóla unga fólksins, í samtali við mbl.is um 20 ára afmæli skólans.

Hún bætir við að alltaf sé mikið að gera þegar opnað er fyrir skráningu í skólinn og að hann fyllist mjög fljótt. Fram kemur í tilkynningu að í ár séu 250 nemendur búnir að skrá sig í skólann en að um 10.000 nemendur hafi sótt nám við skólann síðan hann hóf starfsemi árið 2004.

35 námskeið í boði

Kennsla hefst í dag en meðal þess sem nemendur munu fást við í vikunni er gervigreind, dulkóðun og japönsk fræði.

Skólanum verður slitið á föstudaginn en þá verður haldin lokahátíð þar sem 20 ára afmælinu verður einnig fagnað.

Nemendur skólans eru á aldrinum 12 til 14 ára og geta þeir valið á milli 35 námskeiða í 14 ólíkum stundatöflum. 

Í þeim er að finna námskeið af öllum fræðasviðum Háskóla Íslands, í félagsvísindum, hugvísindum, menntavísindum, heilbrigðisvísindum, verkfræði, raun- og náttúruvísindum og þverfræðilegum greinum, að því er fram kemur í tilkynningu.

Kennsla hófst í Háskóla unga fólksins í dag í Háskóla …
Kennsla hófst í Háskóla unga fólksins í dag í Háskóla Íslands. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Kynntist svipaðri starfsemi erlendis

Kristín segir að rekja megi skólastarfið til þess að Páll Skúlason, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, kynntist svipaðri starfsemi á ferðum sínum erlendis og því hefði skólinn verið stofnaður.

„Megináherslan er að vekja áhuga ungs fólks á námi, vísindum og fræðum. Hjá okkur gefst börnum og unglingum kostur á því að fræðast um allt á milli himins og jarðar,“ segir Kristín og bætir við að háskólinn stefni einnig að því að efla tengsl við íslenskt samfélag og yngri samborgara ásamt því að auka skilning og áhuga allra á vísindum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert