Háð vopnahléi að aðstoðin komist til skila

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra. mbl.is/Arnþór

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir að íslensk stjórnvöld ætli að auka mannúðarstuðning vegna átakanna á Gasa. Það sé þó háð vopnahléi að það verði að vera hægt að koma aðstoðinni til skila.  

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, beindi í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi, máli sínu að utanríkisráðherra og spurði af hverju rödd íslenskra stjórnvalda heyrðist ekki hærra. Af hverju þau væru ekki afdráttarlausari í sinni stöðu og hvort ráðherra styddi ályktun Viðreisnar í þessum málum sem snertir meðal annars að kallað verði frekar eftir vopnahlé, gíslum sleppt og mannúðaraðstoð aukin.

Í svari sínu sagði ráðherra að stjórnvöld hefðu í raun framkvæmt allt það sem ályktun Viðreisnar óskaði eftir.

„Vopnahlé er auðvitað forsenda þess að hjálparstofnanir og aðrir viðbragðsaðilar geti veitt almennum borgurum Gasa nauðsynlega aðstoð og dreift nauðþurftum. Við munum á næstunni auka enn frekar mannúðarstuðning okkar á svæðið, en það verður auðvitað að vera hægt að koma honum þangað. Það er aldrei hægt að réttlæta það að svelta börn og fólk, almenna borgara, inni á svæðum, alveg sama hvað gengur á. Það er það sem við sjáum merki um að sé að gerast. Það mun ég alltaf fordæma og segi skýrt: Íslendingar byggja tilveru sína á því að alþjóðalög séu virt og það gerum við bæði í orði og á borði og nýtum hvert tækifæri til,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Hafa íslensk stjórnvöld komið sjónarmiðum sínum til skila?

Sigmar ítrekaði þá mikilvægi íslenskrar raddar á alþjóðavettvangi. Hann spurði hvort að íslensk stjórnvöld hefðu í raun komið því til skila til þeirra ísraelsku að þeim þyki þau ganga of langt í sínum aðgerðum og þær beri að stöðva.

Í svari sínu endurtók utanríkisráðherra erfiðar aðstæður til þess að koma mannúðaraðstoð til skila og óásættanlegt mannfall en veitti þó spurningu Sigmars hvað mesta athygli.

„Það sem er augljóslega flókið í þessu, er að við, Ísland, á auðvitað ekki í neinu einasta samtali við hinn aðilann í þessu stríði, sem eru hryðjuverkasamtökin Hamas. Og við höfum þar af leiðandi engar leiðir til þess að þrýsta á vopnahlé eða lausn gísla á framfylgd mannúðarlaga þeim megin, nema á alþjóðavettvangi, sem þeim er nokk sama um. Við höfum komið okkar sjónarmiðum á framfæri, bæði með sérstökum samtölum og sömuleiðis auðvitað með okkar atkvæðagreiðslum, atkvæðaskýringum, yfirlýsingum og öðrum þáttum,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Uppfært klukkan 21.13:

Fyrirsögnin var uppfærð. Ísland mun veita aukna mannúðaraðstoð en það er háð vopnahléi hvort hún komist til skila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert