Kvöldfréttirnar verða klukkan 21 í sumar

Við höfuðstöðvar ríkisútvarpsins í Efstaleiti.
Við höfuðstöðvar ríkisútvarpsins í Efstaleiti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kvöldfréttir í sjónvarpi ríkisútvarpsins verða fluttar klukkan 21 á kvöldin í sumar, í stað kl. 19 eins og hefð er fyrir.

Í tilkynningu á vef opinbera hlutafélagsins segir að þetta sé gert til að lágmarka rask sem Evrópumeistaramót karla í fótbolta og Ólympíuleikarnir í París hefðu annars í för með sér.

Íþróttir eru þar sagðar munu verða áberandi í sumar.

Leikir kl. 13, 16 og 19

EM karla í fótbolta hefst föstudagskvöldið 14. júní klukkan 19 með leik Þýskalands og Skotlands. Mótið er haldið í Þýskalandi og leikirnir verða klukkan 13, 16 og 19 í beinni útsendingu.

Leikið er til úrslita sunnudagskvöldið 14. júlí klukkan 19.

„Ólympíuleikarnir hefjast svo í París rúmri viku síðar, föstudaginn 26. júlí og standa yfir til sunnudagsins 11. ágúst. Flestar lykilgreinar verða á kjörtíma og beinar útsendingar verða frá morgni til klukkan rúmlega 20 á kvöldin,“ segir í tilkynningunni.

Fréttirnar eru loks sagðar munu færast aftur í fyrra horf mánudaginn 12. ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert