Sjö ár „talsvert langur tími í ríkisstjórn“

Guðmundur Ingi segir að Vinstri græn þurfi að hefja nýjan …
Guðmundur Ingi segir að Vinstri græn þurfi að hefja nýjan kafla. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vinstri Græn (VG) þurfa að leita aftur í rætur sínar, skerpa á málefnaáherslum og hefja nýjan kafla í sögu flokksins. Vísbendingar eru uppi um hægrisveiflu á Íslandi.

Þetta segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, starfandi formaður VG, í samtali við mbl.is.

„Ég tel að við þurfum að hefja nýjan kafla fyrir VG. Á sama tíma og við höfum náð miklum árangri á undanförnum sjö árum, þá er það líka talsvert langur tími í ríkisstjórn. Við þurfum að skerpa á okkar málefnum, við teljum okkur hafa mjög gott erindi í íslenska pólitík.“

Þurfa að vera róttækari og fara til vinstri

Hann segir erindi VG vera byggt á félagslegu réttlæti, umhverfisvernd, friðarhyggju, mannréttindamálum og kvenfrelsismálum. Hann segir að á undanförnum árum hafi náðst mikill árangur í þessum málaflokkum.

Nefnir hann þriggja þrepa skattkerfi, fjölda friðlýsinga, minni greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu, breytingar á lögum um þungunarrof, fjármagnaða aðgerðaráætlun í loftlagsmálum og svo framvegis.

„En já ég tel að við þurfum að taka samtalið inn í grasrótinni og sjá hvert fólk vill að VG stefni núna fyrir næstu kosningar, leita svolítið í ræturnar og erindi í pólitíkinni,“ segir Guðmundur og bætir við:

„Ég er þeirra skoðunar að það þurfi að vera til vinstri og það þurfi að vera enn þá meira í áttina að róttækari umhverfisstefnu.“

Mikilvægt að kára verkefni ríkisstjórnarinnar

Telur þú að þátttaka Vinstri grænna í ríkisstjórninni sé meginástæða fylgistapsins?

„Það sem við erum að sjá í löndunum í kringum okkur er að langflestar ríkisstjórnir eru að tapa vinsældum tiltölulega hratt. Þessi ríkisstjórn kannski minna heldur en maður hafði átt von á, á fyrra kjörtímabilinu. En auðvitað hefur þátttaka í ríkisstjórn oft áhrif á fylgi,“ segir Guðmundur.

Guðmundur Ingi á flokksráðsfundi VG.
Guðmundur Ingi á flokksráðsfundi VG. mbl.is/Árni Sæberg

Hann segir að þetta eigi þó ekki bara við um VG og vísar á fylgistap hinna ríkisstjórnarflokkanna, miðað við kannanir.

„Ég tel hins vegar mjög mikilvægt að við klárum það verkefni sem við tókum að okkur,“ segir hann og bendir á verkefni á borð við það að ná niður verðbólgu og vaxtastigi.

Hann segir mörg framfaramál vera á lokametrunum á Alþingi. Nefnir hann sem dæmi endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu, nýja mannréttindastofnun, mál sem tengjast kjarasamningum og aðgerðir vegna eldsumbrota á Reykjanesskaga.

Vísbendingar um hægrisveiflu

Guðmundur segir að víða um heiminn og í nágrannalöndum sé hægrisveifla í stjórnmálum, því þurfi að vera skýr valkostur til vinstri.

„Ég vil að við höldum áfram að vera sá valkostur.“

Telur þú að það sé hægrisveifla á Íslandi, með tilliti til flokka eins og Miðflokksins?

„Já það eru ákveðnar vísbendingar um það að það gæti verið hægrisveifla í uppsiglingu líka hér á Íslandi. Já meðal annars, við erum að sjá Miðflokkinn stækka.

Mér hefur líka fundist ákveðin skilaboð, almennt í pólitíkinni, vera lengra til hægri af þeim flokkum sem hafa talið sig til miðju og hægri flokka. Jafnvel fleiri flokkar,“ svarar Guðmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert