Virknin áfram stöðug

Eldgosið við Sundhnúkagígaröðina hefur staðið yfir í tólf daga.
Eldgosið við Sundhnúkagígaröðina hefur staðið yfir í tólf daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Virknin í eina gígnum sem er virkur í eldgosinu við Sundhnúkagíga er stöðug eins og hún hefur verið síðustu daga.

„Það er góður gangur í þessum eina gíg og það eru að koma slettur öðru hvoru upp úr honum,“ segir Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Bjarki segir að það sé hæg hreyfing á hraunstraumnum í gegn um hraunpollinn sem brast um helgina í áttina að Sýlingarfelli og að hrauntungan hafi ekki tekið miklum breytingum í nótt.

Í fyrradag jókst hraunstreymið norður fyrir Sýlingarfell með þeim afleiðinum að Grindavíkurvegurinn fór undir hraun í þriðja sinn.

Lítil skjálftavirkni er á svæðinu eins og jafnan er þegar eldgos er í gangi og að sögn þá mælist lítil gasmengun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert