Bjarni ávarpaði velsældarþing í Hörpu

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tók við viðurkenningu á þinginu.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tók við viðurkenningu á þinginu. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra flutti í dag opnunarávarp á alþjóðlegu velsældarþingi sem haldið er í Hörpu.

Frá þessu er greint í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Bjarni fjallaði um velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar í ávarpi sínu og að innleiddir hefðu verið 40 velsældarvísar til að styðja við stefnumótun með það að markmiði að auka velsæld og lífsgæði.

Viðurkenning fyrir innleiðingu velsældaráherslna

„Á undangengnum áratugum hafa ríkisstjórnir og alþjóðastofnanir sameinast um að innleiða aðferðafræði velsældar og sjálfbærrar þróunar við stefnumótum og ákvarðanatöku og forgangsraða á grunni efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra þátta,“ er haft eftir Bjarna í tilkynningunni.

„Þannig er leitast við að líta ekki einungis til efnahagslegra mælikvarða líkt og þjóðarframleiðslu eða hagvaxtar þegar lagt er mat á þróun lífsgæða almennings. Hér á landi er meðal annars horft til þess að aukin velsæld hefur jákvæð áhrif á heilsufar sem kemur öllu samfélaginu til góða.“ 

Tók við viðurkenningu

Bjarni tók við við viðurkenningu frá Hans Kluge, evrópuforstjóra alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO), fyrir vinnu íslenskra stjórnvalda að innleiðingu velsældaráherslna hérlendis.

Viðurkenninguna afhenti Chris Brown sem stýrir evrópuskrifstofu WHO um fjárfestingu í heilsu.

Þá mun Bjarni einnig eiga tvíhliðafund með Tom Arthur, ráðherra vinnumála og fjárfestinga í Skotlandi vegna þingsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert