Fann hátt í tuttugu dauða fugla á tjaldsvæðinu

Fuglarnir hafa líklegast króknað úr kulda.
Fuglarnir hafa líklegast króknað úr kulda. Ljósmynd/Aðsend

Sigfús Illugason ferðaþjónustubóndi á Bjargi í Mývatnssveit fann hátt í tuttugu dauða fugla á tjaldsvæðinu sínu í gær er hann fór að taka þar til.

„Þeir hafa verið orðnir svangir og ekki haft orku. Þeir hafa bara króknað flestir úr kulda,“ segir Sigfús í samtali við blaðamann mbl.is, spurður hvort vísbendingar séu um orsakir dauðans.

„Það var bara stórhríðarveður hér dag eftir dag,“ segir Sigfús.

Í heildina voru fuglarnir hátt í tuttugu sem hann fann dauða á tjaldsvæðinu en hann tekur fram að hann eigi enn eftir að fara yfir allt tjaldsvæðið.

Veðrið í byrjun júní líktist ekki hefðbundnu sumarveðri. Myndin er …
Veðrið í byrjun júní líktist ekki hefðbundnu sumarveðri. Myndin er tekin í Mývatnssveit. Ljósmynd/Aðsend

Man ekki eftir öðru eins veðri í júní

„Ég fann þarna sex hrossagauka, átta skógarþresti, einn þúfutittling og hrossagauk í morgun,“ segir Sigfús.  

Aðspurður kveðst hann ekki muna eftir öðru eins veðri í júní.

„Ég man eftir hretum í júní en það var meira í nafni hreta, svona tveir til þrír dagar. En svona langvarandi, í nærri því viku, er meira en hret finnst mér.“ 

Veðrið hafi nálgast það að vera kuldatíð.

Hann segir endurnar virðast hafa komist sjálfar af þessu vonda veðri.

„Við búumst samt við því að varpið hafi farið illa eða mjög illa hjá öndunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert