Góðar líkur á að húsaleigulög verði afgreidd

Líneik segir góðar líkur á að hægt verði að afgreiða …
Líneik segir góðar líkur á að hægt verði að afgreiða húsaleigulögin fyrir þinglok. mbl.is/Hákon

Lín­eik Anna Sæv­ars­dótt­ir, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, telur góðar líkur á að hægt verði að afgreiða frumvarp um húsaleigulög á þinginu fyrir þinglok. 

Starfsáætlun Alþingis gerir ráð fyrir að þingi ljúki á föstudag, en eins og mbl.is greindi frá í gær telur Birg­ir Ármanns­son, for­seti þings­ins, lík­legt að þingmenn þurfti að sitja lengur.

Leggja sig fram við að leysa álitamál 

Húsaleigulög eru meðal þeirra mála sem tengjast stöðugleikasamningnum sem gerður var til að auka fyrirsjáanleika og stöðugleika í efnahagslífinu með það að markmiði að ná niður verðbólgu og vöxtum. 

Segir Líneik Anna það eina ástæðu þess að menn leggi sig fram við að leysa álitamál í lögunum þannig að hægt verði að afgreiða þau úr þinginu. 

Sköpuðu svigrúm

Sé staða málsins skoðuð á vef Alþingis má sjá að málið er enn statt í fyrstu umræðu. Líneik Anna segir málið nú hjá framsögumanni sem vinni með þau álitamál sem uppi eru auk þess sem nefndarritari sé að leggja lokahönd á nefndarálitið. Því styttist óðum í að hægt verði að taka málið til umræðu í þingsal. 

Líneik tekur jafnframt fram að í gær hafi frumvarp vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfisins verið tekið úr nefndinni og þannig hafi skapast svigrúm til að leggja áherslu á önnur mál, en um var að ræða stórt mál innan nefndarinnar. 

Aðspurð segir hún vonir standa til að sex til átta mál verði afgreidd úr nefndinni fyrir þinglok, en þau mál eru að hennar sögn öll komin á lokastig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert