Vilja skoða að gera RÚV að hefðbundinni ríkisstofnun

Segir meirihlutinn að núverandi fyrirkomulagi, þar sem framlög til RÚV …
Segir meirihlutinn að núverandi fyrirkomulagi, þar sem framlög til RÚV hækka samkvæmt sérlögum og útvarpsgjald er ákveðið einu sinni á ári, fylgi ákveðin rekstraráhætta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meirihluti fjárlaganefndar telur skynsamlegt að skoðað verði hverjir séu kostir og gallar þess að Ríkisútvarpið verði hefðbundin A-1 ríkisstofnun og að framlög til stofnunarinnar verði ákveðin í fjárlögum hvers árs.

Þetta kemur fram í nefndaráliti meirihlutans um fjármálaáætlunina fyrir árin 2025 til 2029.

Segir meirihlutinn að núverandi fyrirkomulagi, þar sem framlög til RÚV hækka samkvæmt sérlögum og útvarpsgjald er ákveðið einu sinni á ári, fylgi ákveðin rekstraráhætta. Engin tengsl séu því á milli lögbundinnar hækkunar framlaga og útgjalda stofnunarinnar.

Bent er á að tekjur RÚV aukast þegar hagvöxtur eykst, íbúum fjölgar og auglýsingatekjur aukast en þróun útgjalda tengist aftur á móti launahækkunum opinberra starfsmanna og öðrum kostnaðarhækkunum, t.d. við aðkeypta þjónustu.

Fjórar breytingartillögur

Meirihlutinn leggur til fjórar breytingartillögur á fjármálaáætluninni. Í fyrsta lagi að lögreglan og Landhelgisgæslan verði undanþegin almennri aðhaldskröfu ríkisins á tímabili fjármálaáætlunarinnar.

„Yfirgnæfandi hluti útgjalda lögreglunnar fer í launagreiðslur og aðhald kallar á fækkun starfa í löggæslu sem er í andstöðu við stefnumörkun meirihlutans,“ segir í nefndarálitinu.

Í öðru lagi leggur meirihlutinn til að sambærileg tillaga verði einnig látin ná til dómstólanna og tekið tillit til athugasemda þeirra við áætlunina.

Uppbygging á Hólum

Í þriðja lagi leggur meirihlutinn til að opnað verði sendiráð Íslands á Spáni. Bent er á að Ísland er eina ríkið innan NATO sem ekki hefur sendiráð í Madríd og mikið álag er á kjörræðismönnum Íslands á Spáni.

Kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir 132 milljóna kr. árlegum kostnaði við sendiráð á Spáni nema á fyrsta árinu þegar hann verði 177 milljónir vegna stofnkostnaðar.

Í fjórða lagi er lagt til að fjármagn verði veitt til að hefja uppbyggingu í Skagafirði í tengslum við Háskólann á Hólum, sem verði hluti af háskólasamstæðu með Háskóla Íslands.

Uppbygging húsnæðis fyrir eldis- og rannsóknaraðstöðu fyrir fiskeldis- og fiskalíffræðideild verði fjármögnuð og aðstaða námsbrautar í hestafræði tryggð betur. Kostnaður á næsta ári við þetta er áætlaður 200 milljónir og 150 milljónir á árinu 2026.

Útgjöld aukist hraðar en á Norðurlöndum

Samtals er gert ráð fyrir að allar breytingartillögurnar hækki útgjöld í fjármálaáætluninni um 705 milljónir á næsta ári, 637 milljónir á árinu 2026 og um rúmar 500 milljónir á hverju ári út áætlunartímann til 2029.

Meirihlutinn fjallar ítarlega um þróun ríkisfjármálanna og hvetur til þess að áformum um eignasölu verði hraðað.

Birt er yfirlit yfir hækkun rammasettra útgjalda frá 2017 til 2029, sem að raungildi hækka um 415 milljarða á tímabilinu, mest vegna heilbrigðismála og almannatrygginga.

„Síðastliðin ár hafa útgjöld hins opinbera aukist mun meira hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum,“ segir í álitinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert