Engin leið að bera á túnin

Ekki hefur náðst að dreifa áburði á tún í Reykjadal …
Ekki hefur náðst að dreifa áburði á tún í Reykjadal sökum seinnar vorkomu. mbl.is/RAX

Bóndi fyrir austan segir enga leið að bera á túnin sökum skafla. Sein vorkoma varð til þess að ekki gafst tækifæri til að bera á túnin fyrir óveðrið sem geisaði um landið í seinustu viku. 

Ari Teitsson, sauðfjárbóndi á Hrísum í Reykjadal og fyrrverandi formaður Bændasamtakanna, segist aldrei hafa séð annað eins veður á þessum árstíma í þau 80 ár sem hann hefur lifað.

„Ég get fullyrt það,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Það er ekki eðli sauðfjárins að vera inni með mánaðargömul …
Það er ekki eðli sauðfjárins að vera inni með mánaðargömul lömb. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Þá þarf bara að lóga þeim“

Hvað afföll varðar segir hann að svo hafi ekki orðið með beinum hætti þannig að fé fennti. Hins vegar sé það ekki eðli sauðfjárins að vera inni með mánaðargömul lömb því þau gangi svo hart að mæðrum sínum.

Hann segir að lömbin hafi ekkert annað en móðurmjólkina, þau kunni illa að éta hey og kjarnfóður og endi því með að skemma júgrin. 

„Það þýðir að ærnar geldast og hugsanlega veikjast einhverjar og deyja, það er þó ekki líklegt, en þær verða bara mjólkurlausar til hausts og lömbin lítil og síðan ef að júgrin eru varanlega skemmd, þá þarf bara að lóga þeim í haust,“ segir Ari. 

Hey fer minnkandi

Ari segir að þrátt fyrir góða uppskeru í fyrra sumar fari hey minnkandi þegar menn eru að gefa bæði sauðfé og nautgripum langt fram í júní.

„Það er líka annað sem gerist og þá er það yfirleitt lélegri hey sem verða eftir ef menn eiga svona lakari rúllur sem þeir voru kannski ekki vissir um að nota og það er ekki hey sem að hentar til þess að gefa ám sem að þurfa að mjólka inni,“ segir Ari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert