Leyndardómsfull Lögréttutjöld sýnd í fyrsta sinn

Tjöldin hafa ekki verið aldursgreind.
Tjöldin hafa ekki verið aldursgreind. Ljósmynd/Skoska þjóðminjasafnið

Lögréttutjöldin verða í fyrsta sinn opinberlega til sýnis á Íslandi síðar í þessari viku.

Tjöldin eru kennd við Lögréttu á Þingvöllum en talið er að þau hafi hangið þar á 18. öld. Um er að ræða menningarverðmæti sem fela í sér allt í senn; sögu, trú og listfengi þjóðarinnar.

„Tjöldin eru með svolítið leyndardómsfullan bakgrunn,“ segir Anna Leif A. Elídóttir, verkefnastjóri nýrrar sýningar um Lögréttutjöldin, í samtali við mbl.is.

„Því að við vitum ekki fyrir víst meira en í rauninni stendur fyrst í skráningum þjóðminjasafnsins í Skotlandi árið 1854: Að þau séu frá Íslandi og hafi hangið uppi í Lögréttu á Þingvöllum fyrir árið 1800.“

Spakmæli og brot úr Passíusálmum

Um er að ræða tvö tjöld úr ull og líni, skreytt útsaumi og áletrunum. Á öðru eru spakmæli en á hinu brot úr Passíusálmum Hallgríms Péturssonar.

Tjöldin eru í eigu þjóðminjasafns Skotlands sem lánaði þau fyrir sýninguna.

Lögréttutjöldin verða til sýnis á Þjóðminjasafni Íslands, í fyrsta sinn …
Lögréttutjöldin verða til sýnis á Þjóðminjasafni Íslands, í fyrsta sinn opinberlega. mbl.is/Sigurður Bogi

Seld úr landi árið 1858

Hvernig tjöldin enduðu í Skotlandi má rekja til ársins 1858 þegar Hallgrímur Scheving, sem bjó og starfaði á Bessastöðum lungann úr sinni starfsævi, gaf eða seldi Robert Mackay Smith tjöldin.

„Hann [Smith] var ríkur maður og var hérna kannski meira en ferðamaður, sennilega var hann að versla líka og svona. Hann fékk þó nokkra gripi á Íslandi sem lentu margir hverjir á þjóðminjasafninu í Skotlandi,“ segir Anna. 

Aldur tjaldanna óviss

Að sögn Önnu hefur engin aldursgreining, kolefnisgreining eða slíkt farið fram og því ekki hægt að segja nákvæmlega til um aldur tjaldanna. 

Vitað er að textinn eftir Hallgrím Pétursson er frá því eftir árið 1666 þegar Passíusálmarnir eru fyrst gefnir út, svo annað tjaldið er ekki eldra en það.  

„Lögrétta hættir á Þingvöllum 1798 þannig að kannski er þetta 150 ára gamalt þegar það er hætt að nota þetta þar, mögulega er þetta saumað milli 1670 og 1700, einhvern tímann á þeim tíma, mögulega. Eigum við að segja svona öðrum hvorum megin við 1700, við getum alveg komist upp með að segja það held ég,“ segir Anna.

Starfsmennirnir hissa

Tjöldin eru mjög vel á sig komin miðað við aldur og segir Anna að starfsmenn skoska þjóðminjasafnsins, sem fylgdu tjöldunum til Íslands og settu þau upp, hafi verið mjög hissa á því.

Sýningin verður opnuð í Þjóðminjasafninu á föstudag, 14. júní, klukkan 16.30, og mun Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og ferðamálaráðherra, flytja ávarp við tilefnið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert