Lofar að útrýma fátækt með umboði þjóðarinnar

Inga Sæland, þingmaður og formaður Flokks fólksins, við eldhúsdagsumræður á …
Inga Sæland, þingmaður og formaður Flokks fólksins, við eldhúsdagsumræður á Alþingi í kvöld. mbl.is/Arnþór

Inga Sæland, þingmaður og formaður Flokks fólksins, gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega fyrir forgangsröðun fjármuna og sagði það með hreinum ólíkindum hvernig farið væri með fjármuni þegar barist væri fyrir því að fólk í landinu ætti mat á diskinn sinn.

„Við skulum tala um Hörpupartí upp á rúmlega 2 milljarða. Við skulum horfa á 4 milljarða til vopnakaupa á hverju einasta ári næstu fjögur árin. Það er tvisvar sinnum hærri upphæð heldur en þessi ríkisstjórn setur í fíknisjúkdóma eins og hann leggur sig,“ sagði Inga Sæland.

Hún segir 100 einstaklinga deyja hér árlega ótímabærum dauða vegna fíknisjúkdóms. Yfir 700 einstaklingar bíði eftir því að komast að á sjúkrahúsinu Vogi, þar sem vantar langtímameðferð og langtímaúrræði.

Ríkissjóður ekki ótæmandi lind

„Þetta er ekki ótæmandi lind [ríkissjóður] en forgangsröðun fjármuna hefur sýnt sig í verki hjá þessari ríkisstjórn í tæp sjö ár að hinn almenni borgari, venjulegt fólk í landinu, geti étið það sem úti frýs,“ sagði Inga.

Hún sagði þjóðina eiga eina von og hugsjón og að það væri Flokkur fólksins.

„Í þessu árferði sem við erum að búa við í dag og í þessari vaxandi fátækt, þetta er ekki að gerast á einum degi svo mikið er alveg víst,“ sagði Inga en að flokkarnir sem hafa verið við stjórnvölin hafi sýnt hvernig þeir ætla að taka utan um samfélagið í heild sinni.

„Við í Flokki fólksins segjum: Fólkið fyrst og svo allt hitt. Ég get líka lofað og svarið því, eins og háttvirtur þingmaður Kristrún Frostadóttir gerði hér á undan. Ég sver og ég lofa því að með ykkar umboði þá skal ég útrýma fátækt á Íslandi,“ sagði Inga að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert