Raki, eldgos og leki halda handritum frá Eddu

Kostnaður við byggingu Eddu er sagður hafa verið um 7,5 …
Kostnaður við byggingu Eddu er sagður hafa verið um 7,5 milljarðar króna. Samsett mynd

Handritin hafa enn ekki ratað í Eddu, hús íslenskra fræða, sökum þess að ekki hefur verið hægt að tryggja nægjanleg loftgæði til geymslu þeirra í húsnæðinu til þessa.

Rúmt ár er síðan húsið opnaði eða í apríl árið 2023. Var hugmyndin sú að handritin yrðu krúnudjásn byggingarinnar í sérstökum sýningarsal. Enn bólar þó ekkert á þeim.   

Nokkur atriði standa þar í vegi.

Uppfært hættumat 

Enn er of mikill raki í steypuplötu sem umlykur geymslu handritanna og þess beðið að steypuplatan þorni.

Þá hafa eldgos á Reykjanesskaga og leki sem upp kom á háskólasvæðinu árið 2021 gert það að verkum að nauðsynlegt hefur þótt að uppfæra hættumat varðandi öryggi handritanna og vinna að öryggisatriðum í takti við það.

Lagfæringar á rakastýringarbúnaði standa yfir og sömuleiðis aðgerðir til að koma til móts við uppfært hættumat sem gert var árið 2022 en hönnun hússins hófst árið 2007.

7,5 milljarða króna hús

Valur Örnólfsson, deildarstjóri verkhönnunar og framkvæmda hjá Framkvæmdasýslu ríkisins.
Valur Örnólfsson, deildarstjóri verkhönnunar og framkvæmda hjá Framkvæmdasýslu ríkisins. Ljósmynd/Framkvæmdasýsla ríkisins

„Þetta er ákveðið lærdómsferli. Það grunaði engan þegar verið var að hanna húsið að lögn gæti farið þarna og það grunaði engan að það gæti farið að gjósa á Reykjanesskaga,“ segir Valur Örnólfsson, deildarstjóri verkhönnunar og framkvæmda hjá Framkvæmdasýslu ríkisins. 

Að sögn hans er vonast til þess að handritin komist inn í Eddu á haustmánuðum. 

Sem stendur eru handritin í geymslu í Árnastofnun. Kostnaður við byggingu Eddu er sagður hafa verið um 7,5 milljarðar króna. 

Samkvæmt upplýsingum frá Framkvæmdasýslu ríkisins er aukalegur kostnaður við þau verkefni sem nú standa yfir, og miða að því að gera Eddu handritahæft, 106 milljónir króna.  

Ekki óvenjulega hæg

Þykk steinplata umlykur geymslu handritanna auk þynnri vikurklæðningar og tekur það talsverðan tíma að þurrka þessi efni. Nökkvi Páll Jónsson, byggingarstjóri verkefnisins og verkefnastjóri hjá Eflu, segir ekki óeðlilegt að steypan sé enn of blaut. 

„Útgufun úr þessari þykku plötu er hæg en hún er ekkert óvenjulega hæg,“ segir hann.

Unnið sé að þrenns konar verkefnum sem miða að því að koma handritunum inn í Eddu.

Í fyrsta lagi stendur vinna við að gera öryggisráðstafanir í takti við uppfærða áhættugreiningu sem gerð var eftir að vatnslögn fór í sundur á Suðurgötu árið 2021. Í því skyni hefur vatnsinntak og rafmagn verið aðskilið og dælum komið fyrir sem virka í rafmagnsleysi. 

Mikið tjón varð á háskólasvæðinu í þeim leka enda runnu 2.250 tonn af vatni úr lögninni á 75 mínútum. Á það hefur verið bent að ef þessi sama lögn hefði brostið á öðrum stað, þá eru líkur á að Edda hefði farið illa út úr því.

Breytt sýrustig vegna eldgosa 

Eins hafa, að sögn Nökkva, eldgosin á Reykjanesskaga breytt sýrustigi í andrúmsloftinu.

Af þeim sökum var ákveðið að bæta kolasíum í loftræstikerfin sem veita lofti í geymslu og sýningarsal handritanna. 

Stendur sú vinna yfir þessa dagana.

Rakastýrðir skápar virkuðu ekki sem skyldi

Nökkvi segir einnig unnið að því að stilla betur rakaíbætikerfi sem stýrir rakastigi inn í handritageymslu og sýningarsal. 

Helgast það meðal annars af því að rakastýrðir sýningarskápar sem fengnir voru að utan hafa hafa ekki náð að halda rakastiginu stöðugu. 

„Það eru ákveðnir skápar sem komu rakastýrðir frá framleiðanda, sem ekki hafa náð að halda rakastiginu réttu og sveiflurnar of miklar samkvæmt mælingum okkar. Því erum við að fara í rakaíbætingu inni í sýningarsalnum sjálfum því það hjálpar við að halda rakastiginu réttu inni í sýningarskápunum,“ segir Nökkvi.

Einnig þarf að fara í sambærilegar aðgerðir sem miða að því að stilla rakann betur af inni í hvelfingunni sem geymir þau handrit sem ekki eru til sýnis.

Handritin geymd í vöggum 

Árnastofnun birti í vikunni á Facebook að til stæði að hafa handritin til sýnis í sértilgerðum vöggum.

Svo virðist sem hönnun þeirra sé ekki lokið og af myndum að dæma er starfsfólk stofnunarinnar að velta því upp hvernig best sé að stilla handritunum upp þegar af sýningu verður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert