Skyndiáhlaup líklegt en umfangið óljóst

Hraun rann yfir Grindavíkurveg á laugardag. Þetta er þriðja sinn …
Hraun rann yfir Grindavíkurveg á laugardag. Þetta er þriðja sinn sem hraun rennur yfir veginn á þessum slóðum. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Land rís aftur í Svartsengi, þó ekki sé vitað hversu hratt. Enn gýs úr einum gíg á Sundhnúkagígaröðinni og hrauntjörn suðaustan Sýlingarfells fyllist í annað sinn.

Ef tjörnin brestur gæti hraun aftur gert skyndiáhlaup í átt að Njarðvíkuræð.

„Við þurfum að bíða nokkra daga ti að geta metið hraðann [á landrisinu] betur, þurfum að fá fleiri punkta inn,“ segir Lovísa Mjöll Guðmunds­dótt­ir, nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur á Veður­stofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Veðurstofan staðfesti í gær að landris væri hafið að nýju. Það þýðir að meiri kvika flæðir inn í kvikuhólfið heldur en streymir út úr gígnum – séríslensk hegðun sem hefur aðeins sést á Sundhnúkagígareininni.

Lovísa segir að það  samt erfitt að segja til um hvort þetta þýði að gosið muni vara lengur en önnur sem orðið hafa á svæðinu. Við verðum í raun bara að bíða og sjá, segir hún.

Hvenær brestur tjörnin?

Gosið hófst af krafti þann 29. maí. Seinna dró úr virkninni en laugardaginn 8. júní brast skyndilega gríðarstór hrauntjörn suðaustan Sýlingarfells. Þá jókst hraunstraumurinn norðvestur eftir hraunbreiðunni og yfir Grindavíkurveg.

Og nú fyllist hrauntjörnin öðru sinni og þá er spurning hvenær hún getur aftur fyllst upp að brún og brostið að nýju. „Það er líklegt að það geti tekið nokkra daga áður en það dregur til einhverra tíðinda,“ segir Lovísa um hrauntjörnina.

Þá mætti gera ráð fyrir því að hraunið flæddi í sömu átt og það gerði á laugardag, skyldi hrauntjörnin bresta, en erfitt er að segja til um hversu langt hrauntungan næði.

„Nú er hraun búið að flæða þarna og harðna og mynda kannski einhverja fyrirstöðu. Það er spurning hversu langt það nær ef það verður áhlaup. Það er í raun ómögulegt að segja. Við vitum ekki magnið sem kæmi, ef það kemur, og eins hver hraðinn á því verður,“ segir náttúruvársérfræðingurinn.

Slæmt skyggni

Slæmt skyggni er yfir gossvæðinu og ekki sést í rautt á nokkurri vefmyndavél sem vísar að hrauninu.

Enn mælist samt gosórói, þannig að öllum líkindum er gosið enn í fullum gangi þó ekki sjáist til þess. „Og var í fullu fjöri í nótt þar til klukkan svona 2 þegar fór að draga fyrir.“

Í gær gerði blámóða vart við sig á suðvesturhorninu og var íbúum ráðið frá útivist hennar vegna. Íbúar þurfa aftur á móti ekki að hafa áhyggjur af móðunni í dag.

„Það er bara duglegur vindur og ekkert verið að mælast frá því í nótt,“ segir Lovísa spurð út í mengunina frá gosinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert