Áður óséð íslensk kvikmyndabrot til sýnis

Á sýningu verða kvikmyndir úr safnkosti Kvikmyndasafnsins sem ekki hafa …
Á sýningu verða kvikmyndir úr safnkosti Kvikmyndasafnsins sem ekki hafa áður komið fyrir augu almennings í bland við ljósmyndir, gripi og frásagnir fólks af atburðunum úr safni Þjóðminjasafnins. Ljósmynd/Þjóðminjasafn Íslands

Áður óséð kvikmyndabrot sem tekin voru upp fyrir 80 árum verða til sýnis á sýningunni „Þjóð í mynd: Myndefni frá stofnun lýðveldis 1944“, sem opnuð verður á morgun.

Sýningin er samstarf Þjóðminjasafns Íslands og Kvikmyndasafns Íslands. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og ferðamálaráðherra, mun flytja ávarp og opna sýninguna á morgun klukkan 16.30 á Þjóðminjasafninu. Samhliða verður sýningin „Lögréttutjöldin“ opnuð. 

Saga lýðveldis út frá fólkinu

Sýningin segir frá stofnun lýðveldisins og hátíðarhöldunum 17. júní 1944 út frá fólkinu og þátttöku þess við þessi tímamót. 

„Við erum ekki að fjalla um formlegheitin eða þingmennina heldur erum við að fjalla um upplifun fólksins,“ segir Bryndís E. Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri sýningarinnar, í samtali við mbl.is.

Hún segir að stofnun lýðveldis hafi ekki bara verið viðburður þar sem þing kaus forseta, ný stjórnarskrá var löggild og íslenska ríkið sagði formlega skilið við danskt konungsvald.

„Við erum að fara svolítið frá þessu og við gerum það þannig að við erum setja saman þessa sýningu úr óséðum kvikmyndabrotum frá Kvikmyndasafni Íslands og svo þremur söfnun Þjóðminjasafnsins.“

Um er að ræða muni úr munasafni, ljósmyndir frá Ljósmyndasafni Íslands og frásagnir úr Þjóðháttasafni Íslands.

Í sýningunni er ekki fjallað um formlegheitin eða þingmennina, heldur …
Í sýningunni er ekki fjallað um formlegheitin eða þingmennina, heldur upplifun fólksins. Ljósmynd/Þjóðminjasafn Íslands

Fann alls kyns óséð efni

Sýningin hefur formlega verið í undirbúningi frá því í desember á síðasta ári en á sér þó lengri aðdraganda. 

„Gunnar Tómas Kristófersson hjá Kvikmyndasafni Íslands vakti athygli okkar á þessu myndefni fyrir um tveimur árum þegar þau fara að stafvæða safnið sitt fyrir Sarp, þá finna þau alls kyns óséð efni frá þessum tíma,“ segir Bryndís. 

Hver er skýringin á því afhverju þetta efni hefur aldrei komið fyrir augu almennings áður?

„Þetta þykir bara svolítið aukaefni út af því að það hefur alltaf verið fókus á formlegheitin, á fyrirmennina, þetta er bara svona efni frá því þegar þeir eru að skjóta yfir hópinn, það er verið að horfa á klettana í Almannagjá þar sem fólkið stendur í skjóli undan rigningunni og þetta bara þótti ekki merkilegt efni.“

Framboð fána réð ekki við eftirspurn

Guðrún segir að allir hafi verið mjög spenntir fyrir þessu nýstofnaða lýðveldi og í sýningunni er sérstaklega vakin athygli á kosningaþátttökunni sem var 98%.

Ein saga segir frá því þegar fólk fór að reisa fánastangir í görðunum sínum en svo voru ekki til nægilega margir fánar fyrir fólk til að flagga.

„Fólkið tók líka þátt, það voru allir að mála húsin sín, fólk reisti fánastangir og lýðveldið er náttúrulega stofnað í skjóli skorts, þetta er í lok stríðsins þannig að það er skortur í landinu, þannig fólk er að búa til sína eigin minjagripi og það var einhvern vegin öllu til tjaldað,“ segir Guðrún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert