Andlát: Lárus Þorvaldur Guðmundsson

Séra Lárus Þorvaldur Guðmundsson er látinn.
Séra Lárus Þorvaldur Guðmundsson er látinn.

Lárus Þorvaldur Guðmundsson, fyrrverandi prófastur og sendiráðsprestur, lést þriðjudaginn 4. júní síðastliðinn, 91 árs að aldri.

Lárus fæddist á Ísafirði 16. maí 1933. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri og útskrifaðist með cand. theol.-próf frá Háskóla Íslands. Á námsárunum starfaði hann sem framkvæmdastjóri Alþýðuflokksins.

Hann var vígður til prests frá Skálholti árið 1963 og skipaður sóknarprestur í Holtsprestakalli í Önundarfirði sama ár. Hann varð prófastur í Ísafjarðarprófastsdæmi árið 1978 og kirkjuþingsmaður til 1988. Lárus var virkur þátttakandi í samfélaginu á Vestfjörðum. Hann starfaði ötullega að æskulýðsmálum, stofnsetti og rak sumarbúðir ásamt öðrum, á Núpi í Dýrafirði og lengst í Holti í Önundarfirði. Náttúrverndarmál voru honum hugleikin og átti hann stóran þátt í gerð Náttúruminjaskrár Vestfjarða.

Lárus var sáttasemjari í V-Ísafjarðarsýslu og prófdómari í Núpsskóla í Dýrafirði. Hann var gilwell-skáti og stofnaði ásamt öðrum skátafélag á Flateyri. Hann var einn stofnenda Hjálms hf. útgerðarfélags á Flateyri og stjórnarformaður þess félags um árabil. Lárus átti sér mörg áhugamál, hann var með einkaflugmannspróf og átti bæði flugvél og bát. Hann notaði hvort tveggja í embættisstörfum sínum fyrir vestan. Lárus var mikill útivistarmaður og vílaði ekki fyrir sér að fara á gönguskíðum yfir fjöll, dali og sjó til þess að komast til sinna starfa.

Árið 1989 var hann ráðinn sendiráðsprestur í Kaupmannahöfn og var jafnframt umsjónarmaður í Húsi Jóns Sigurðssonar. Lárus var sæmdur dannebrogsorðunni af Margréti Danadrottingu fyrir störf sín fyrir Íslendinga í Danmörku.

Eiginkona Lárusar var Sigurveig Georgsdóttir, f. 1930, d. 2018. Lárus og Sigurveig eignuðust þrjú börn. Barnabörnin eru átta og barnabarnabörnin fimm.

Útför Lárusar fer fram í Digraneskirkju í Kópavogi föstudaginn 28. júní kl. 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert