„Sérhagsmunagæsla að tröllríða öllu“

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur er hvatamaður nýs meistaranáms ásamt Ásmundi Friðrikssyni …
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur er hvatamaður nýs meistaranáms ásamt Ásmundi Friðrikssyni alþingismanni. Hann segir jarðvísindum á Íslandi stafa hætta af skotgrafahernaði og sérhagsmunagæslu. mbl.is/Arnþór

„Þetta kemur til af því að við stöndum frammi fyrir erfiðum tímum hvað þetta varðar. Það er líklegt að þessi umbrot sem hafin eru á Reykjanesskaganum haldi áfram næstu áratugina, jafnvel næstu aldirnar,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.

Þeir Ásmundur Friðriksson alþingismaður eru höfundar aðsendrar greinar, sem birtist í Morgunblaðinu á fimmtudaginn í síðustu viku undir fyrirsögninni „Hamfaranám og náttúruvá“, þar sem þeir taka höndum saman og hvetja til þess að ýtt verði úr vör þverfaglegu meistaranámi í hamfarafræðum við Háskóla Íslands.

Benda höfundar á að náttúruvá sé hluti af daglegu lífi landsmanna og síðustu ár hafi Íslendingar lifað tíma sem ef til vill fæstir hafi átt von á.

Þorvaldur og Ásmundur eru höfundar greinar sem birtist í Morgunblaðinu …
Þorvaldur og Ásmundur eru höfundar greinar sem birtist í Morgunblaðinu í síðustu viku þar sem þeir setja sjónarmið sín um nýja námsleið fram. Samsett mynd

Þekkingin til í landinu

„Búast má við því að við fáum stærri gos á Reykjanesskaganum og jafnvel enn þá stærri gos annars staðar,“ heldur Þorvaldur áfram við mbl.is í samtali um hamfaranámið, nauðsyn þess, aðdráttarafl á erlenda námsmenn og væntingar prófessorsins sjálfs sem marga fjöruna hefur sopið á vettvangi sinna fræða.

Hann bendir á að gos annars staðar á landinu geti haft veruleg áhrif á daglegt líf landsmanna og vísar þar til Skaftárelda og Eldgjár svo dæmi séu tekin. „Nú er til ákveðin þekking í landinu um þessa hluti, bæði frá hættusjónarmiði, jarðvísindasjónarmiði og frá félagslegu sjónarmiði en það hefur ekki verið um nægilega mikla samhæfingu á þessum þáttum að ræða hjá okkur,“ segir Þorvaldur.

Þótt markmiðið sé sameiginlegt horfi ekki allir á sömu útkomuna og hugmyndin með hamfarafræðináminu sé að nýta þá þekkingu sem finnist í landinu og samhæfa hana, „gera hana enn þá öflugri með því að mennta þegna framtíðarinnar fyrir þetta svið á fjölbreyttan hátt og gefa þeim meiri möguleika á að kynna sér mismunandi hliðar á fræðunum“, segir Þorvaldur.

Setjist niður og tali saman

Hann segir þá þætti, sem hamfaranáminu sé ætlað að sameina undir einn hatt, dreifða um háskólasamfélagið í núverandi fyrirkomulagi, nýja náminu sé ætlað að bæta þar úr.

„Samhæfingin verður aldrei nema fólk setjist niður og tali saman, hún verður ekki að veruleika nema menn séu með skýra sýn á hvernig þetta eigi að gerast,“ útskýrir Þorvaldur sem hefur gert sér nokkuð skýra mynd af því sem æskilegt væri að meistaranám í hamfarafræðum við Háskóla Íslands næði fram.

Nýjasta gosið við Sundhnúkagígaröðina. Þorvaldur segir hópa nemenda úr ólíkum …
Nýjasta gosið við Sundhnúkagígaröðina. Þorvaldur segir hópa nemenda úr ólíkum fögum geta sameinast um rannsóknir á vettvangi í krafti nýs náms. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Í grein sinni tefla þeir Ásmundur því meðal annars fram að Ísland bjóði upp á einstaka stöðu til að byggja upp nám og menntun í samfélagi sem tekst á við náttúruvá oft á hverju ári. Telur Þorvaldur þar með að Ísland teljist – ásamt örfáum öðrum ríkjum – nánast einstakur vettvangur til að bjóða upp á nám í návígi við atburði á borð við þá sem þjóðin hefur nú horft upp á síðastliðin misseri á Reykjanesskaga?

„Já, ég myndi segja það,“ svarar prófessorinn, „við yrðum ekki bara að bjóða upp á bóknám heldur einnig nám á vettvangi. Þetta er að gerast hjá okkur og þarna eru verðug verkefni til að skoða“, heldur hann áfram, en eins og glöggt má lesa í grein þeirra þingmannsins kæmi væntanlegt nám, ef af yrði, ekki til með að snúast eingöngu um eldsumbrot og ógnir úr iðrum jarðar heldur bjóði landfræðileg lega Íslands á mörkum andstæðra loftstrauma og veðurfar á landinu upp á heildstæða nálgun við það sem hamfarir 21. aldarinnar hafa snúist um í kjölfar loftslagsbreytinga og þess sem kallað hefur verið hamfarahlýnun.

Sérhagsmunagæsla þvælist fyrir þróun

„Menn þurfa ekki annað en að horfa á veðrið undanfarna daga, það þarf ekki að leita lengra, og þau áhrif sem það hefur á samfélagið. Þarna eru verðug verkefni að skoða sem geta verið undir í námi á borð við þetta,“ segir Þorvaldur og bætir því við að með fjölþættu hamfarafræðanámi gætu nemendahópar einbeitt sér að því að skoða og rannsaka einstaka þætti eldsumbrota eða annarrar vár í samstarfi en hvað þann þátt snertir telur prófessorinn víða pott brotinn nú.

„Við megum ekki gleyma því, hvort sem við vinnum fyrir …
„Við megum ekki gleyma því, hvort sem við vinnum fyrir Háskóla Íslands eða Veðurstofuna, og hvort sem við erum í stjórnsýslu innan Háskólans eða Veðurstofunnar, að þetta eru þjónustustöðvar fyrir landið,“ segir Þorvaldur. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta er auðvitað gert að einhverju leyti núna en þá eru menn hver úti í sínu horni og tala ekki saman, samræða, meira segja hjá okkur innan jarðvísindanna, er mjög takmörkuð og hver að passa sitt. Það er mjög sérstakt en þessi sérhagsmunagæsla er að tröllríða öllu, hún er alveg á fullu og hver að passa sitt, það verður að segjast eins og er. Svo kemur Veðurstofan og hún er með sína sérhagsmunagæslu,“ segir Þorvaldur.

Þetta ástand telur hann fræðunum til vansa þótt hann segist að vissu leyti skilja að fólk vilji passa sitt.

„En ef sérhagsmunagæslan fer að þvælast fyrir þróuninni er hún skaðvaldur. Þegar hún er farin út í það að hindra framgöngu á ákveðnum sviðum og hindra framgöngu ákveðinna hópa á þessu litla sviði sem jarðvísindi eru, þá er það mjög neikvætt,“ heldur hann áfram.

Þurfum ekki að vera vinir

Hann telur þverfaglega nálgun nauðsynlega til að vinna verkefnin í sameiningu og á stærri vettvangi. „Við megum ekki gleyma því, hvort sem við vinnum fyrir Háskóla Íslands eða Veðurstofuna, og hvort sem við erum í stjórnsýslu innan Háskólans eða Veðurstofunnar, að þetta eru þjónustustöðvar fyrir landið,“ segir Þorvaldur með áherslu og kveðst óttast að síðastnefnd staðreynd sé mörgum gleymd og sumir fulluppteknir við að ota sínu.

Hann hafi því tekið að íhuga hvernig fræðasviðið gæti komið sér upp úr þeim skotgröfum sem víða hafi verið grafnar, íslenskt samfélag hagnist ekkert á innri baráttu. „Við þurfum að hafa þroska til að tala saman á mannamáli og vinna saman. Við þurfum ekkert að vera vinir til að vinna saman.“

Hvað með útflutningsafurðina sem þið fjallið um í grein ykkar og teljið námið geta orðið?

„Ísland er mjög skemmtilega staðsett út frá þessu sjónarmiði sem kemur auðvitað niður á okkur Íslendingum. Á hinn bóginn verðum við varir við breytingar mun fyrr og á mun öflugri hátt en tíðkast annars staðar,“ svarar Þorvaldur.

Kýrhræ í þorpinu Hargududo í Eþíópíu vorið 2022, þar sem …
Kýrhræ í þorpinu Hargududo í Eþíópíu vorið 2022, þar sem þurrkur og hiti eirir engu. AFP/Eduardo Soteras

Andrúmsloftið og umhverfið sem við búum í sé að breytast, um það sé engum blöðum að fletta.

„Ef við bara horfum á alla þessa atburði sem nú eru í gangi þá er umhverfið sem við höfum treyst á til að halda okkur á lífi að breytast. Við erum jafnvel að taka þátt í að veikja umhverfið og gera því erfiðara fyrir að sjá fyrir okkur. Framtíðin horfir þannig við okkur að náttúruvá mun aukast,“ segir hann af stöðu mála nú, að liðnum tæpum fjórðungi 21. aldarinnar.

Ekki ein eða tvær milljónir

Þarna sé til að mynda um yfirstandandi veðurfarsbreytingar að ræða og þá ekki eingöngu ofsaveður, þurrka og langvarandi úrkomu sem valdi þjóðfélagslegum óstöðugleika er leitt geti til átaka. Nefnir Þorvaldur þar dæmi um Bangladesh sem hverfi nú hratt undir vatn.

„Við vorum með milljón manns á flótta fyrir nokkrum árum og Evrópa réð ekki við neitt, þar fór bara allt á hliðina. Ef ástandið verður þannig í Bangladesh að fólk geti ekki búið þar lengur erum við ekki að tala um flutninga á einni til tveimur milljónum manna, við erum að tala um hundrað til tvö hundruð milljónir. Hvernig ætlum við að takast á við það?“ spyr hann.

Þá geri fólksfjölgun það að verkum að æ fleiri búi nærri svæðum þar sem náttúruvá sé gjarnari á að hafa áhrif, nær eldfjöllum eða á strandsvæðum svo eitthvað sé nefnt. „Þetta er vandamál sem heimurinn stendur frammi fyrir í heild sinni og við getum kannski lagt okkar af mörkum þarna,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, vongóður um nýtt þverfaglegt meistaranám á sviði sem íslensk þjóð stendur beinlínis á dags daglega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert