Þjóðarópera tekin fyrir á haustþingi

Frumvarp Lilju verður tekið fyrir að nýju á haustþingi.
Frumvarp Lilju verður tekið fyrir að nýju á haustþingi. mbl.is/Eyþór

Frumvarp Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, um stofnun Þjóðaróperu verður lögð að nýju fyrir komandi haustþing. 

„Fram hefur komið í fjölmiðlum að Þjóðarópera sé úti í kuldanum. Svo er alls ekki. Við höldum ótrauð áfram að berjast fyrir stofnun Þjóðaróperu og undirbúningur hennar er kominn á fulla ferð með Þjóðleikhúsinu,” er haft eftir Lilju í tilkynningu og vísar hún þar til fréttar Morgunblaðsins.

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að fjárheimildir ráðuneytisins dugi ekki til að fjármagna Þjóðaróperu og hækkun fjárframlaga til listamannalauna.

Aukning í fjármagni sem nemur 800 milljónum 

Í tilkynningu segir að starfsemi Þjóðaróperu sé að fullu fjármögnuð fyrir árið 2025 og verið sé að vinna að aukningu fjárheimilda til starfseminnar í nýrri ríkisfjármálaáætlun. 

Þar segir enn fremur að óperan hefji starfsemi sína í áföngum frá ársbyrjun 2025 og óskað verður eftir aukningu í varanlegu fjármagni til óperustarfsemi í komandi fjármálaáætlun (2026-2030) sem nemur 600 milljónum króna í áföngum og verði að lokum 800 m.kr. árlega frá og með árinu 2028. 

Frumvarp Lilju felur í sér að Þjóðarópera verði stofnuð innan Þjóðleikhússins, en að aðalsetur hennar verði í Hörpu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert