Vilja laga virkjunina að náttúrunni

Axel Viðarsson, yfirverkefnastjóri þróunar- og auðlindasviðs HS Orku, og Rósa …
Axel Viðarsson, yfirverkefnastjóri þróunar- og auðlindasviðs HS Orku, og Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar á kynningarfundi í gærkvöld. mbl.is/Arnþór

Axel Viðarsson, yfirverkefnastjóri þróunar‑ og auðlindasviðs HS Orku, segir fyrirtækið vilja reyna að aðlaga virkjun þess í Krýsuvík að náttúrunni þar – ef af virkjuninni verður.

Hafnarfjarðarbær boðaði til kynningarfundar í Bæjarbíói í gærkvöld í tengslum við nýtt samkomulag sveitarfélagsins við HS Orku um rannsóknir og nýtingu auðlindaréttinda í Krýsuvík til vinnslu á heitu vatni, ferskvatni og til raforkuframleiðslu.

Samhliða því voru kynntar hugmyndir um auðlindagarð og mögulega uppbyggingu innviða á svæðinu.

Krefjandi verkefni

Segir Axel að horft sé til þess meira í dag að mannvirki falli vel að umhverfinu.

„Menn eru miklu meira að reyna að horfa til þess að fella þetta inn að náttúrunni eins mikið og hægt er.“

Nefnir hann að þannig verkefni geti verið krefjandi en það sé þó stefnan hjá fyrirtækinu verði tekin ákvörðun um að reisa virkjun.

„Auðvitað eru sum atriði þarna sem flækja málið. Það eru skiljustöðvar og það eru strompar og svona atriði sem fylgja virkjunarframkvæmdum eins og þessum og það getur verið krefjandi að reyna að koma því inn í fjall en þetta er eitthvað sem okkur langar að gera,“ segir Axel og bætir við að ýmiss konar framfarir hafi átt sér stað í framkvæmd virkjana í dag.

„Til að mynda eins og safnæðar, sem eru æðarnar sem að safna gufunni. Yfirleitt eru lagnirnar gerðar ofanjarðar en við höfum sannað það að það er alveg hægt að gera þetta neðanjarðar líka.“

Frekari uppbygging í höndum Hafnarfjarðarbæjar

Spurður um nánari uppbyggingu á svæðinu, sem myndi mögulega fylgja í kjölfar virkjunar í Krýsuvík, segir Axel að þau spil séu í hendi Hafnarfjarðarbæjar.

„Þetta er alfarið á Hafnarfjarðarbæ að gera það, það er ekki á vegum HS Orku að gera slíkt. Það er þeirra ákvörðun sem hafa skipulagsvaldið á svæðinu að gera svona,“ segir Axel og bætir við:

„Það er klárlega eitthvað sem Hafnarfjarðarbær er að horfa til að gera og nýta í rauninni þessar fyrstu greiðslur sem eru að koma með tilkomu þessa samnings. Sá peningur er eyrnamerktur slíkum framkvæmdum.“

Nefnir Axel að HS Orka myndi þá mögulega koma að slíku verkefni þar sem það líklega yrði gert í gegnum einhverskonar viðskiptasamband við virkjunina ef verið væri að nýta strauma frá henni. Skipulagsvaldið og stefnumótun væri þó hjá bænum.

Aðspurður segir Axel að hann myndi ekki búast við miklum iðnaði á svæðinu.

„Maður heyrir alveg hvernig stemmningin er, hún er ekki fyrir einhverjum rosalega miklum iðnaði. Það er meira verið að horfa til svona hringrásarstarfsemis eins og ræktun og þannig lagað. Það er það sem maður er að skynja í umræðunni núna, sérstaklega á svona svæði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert