Bjartsýnn á að ná loftslagsmarkmiðum

Ráðherrar Bjarni Benediktsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og …
Ráðherrar Bjarni Benediktsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Lilja Dögg Alfreðsdóttir kynntu uppfærða áætlun. mbl.is/Eyþór

„Ég er bjartsýnn,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra, spurður hvernig ganga muni að framfylgja þeim 150 aðgerðum sem eru í uppfærðri loftslagsáætlun.

Mikil fjölgun á aðgerðum

Uppfærð loftslagsaðgerðaáætlun var kynnt í umhverfis-, orku-, og loftslagsráðuneyti fyrr í dag og inniheldur safn 150 aðgerða og verkefna sem snúa að loftslagsmálum. Þegar áætlunin var fyrst kynnt árið 2018 voru þær 50 talsins og telst því fjölgun markmiða og verkefna metnaðarfull. 

Kveðst Guðlaugur engu að síður vongóður um að áætlunin beri góðan árangur. „Við Íslendingar höfum sýnt að við getum verið fremst þegar kemur að grænu hugviti og við eigum að líta á þetta sem tækifæri,“ segir hann í samtali við mbl.is og bætir við: „Við munum ekkert sjá eftir því að ná góðum árangri í þessum málum.“

Guðlaugur Þór kynnti 150 aðgerðir og verkefni.
Guðlaugur Þór kynnti 150 aðgerðir og verkefni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ber hann markmið stjórnvalda í loftslagsmálum saman við þá hitaveituvæðingu sem átti sér stað snemma á síðustu öld á Íslandi. „Það var bara fólk með skýra framtíðarsýn,“ segir hann og útskýrir að þá hafi Íslendingar sýnt einstakt frumkvæði þrátt fyrir erfiðar aðstæður. 

Metnaðarfull samráðsgátt

Spurður hvað verði gert öðruvísi í framfylgd loftslagsmarkmiða í kjölfar uppfærslu áætlunarinnar nefnir Guðlaugur náið samstarf með atvinnulífi og stöðuga eftirfylgni. Opnað hafi verið fyrir samráðsgátt í dag á vefnum co2.is og að hann eigi von á að góðar ábendingar berist í gegnum hana.  

„Ég held að ég geti fullyrt að þetta vinnulag hefur aldrei verið svona áður,“ segir hann en að hans sögn er samráðsgátt þessi sérstaklega metnaðarfull. „Stundum eru settar inn samráðsgáttir í tvær vikur en við erum hérna í tvo mánuði,“ útskýrir hann og kveðst hlakka til að lesa þær athugasemdir sem félagasamtök og einstaklingar innan ólíkra geira atvinnulífsins munu senda ráðuneytinu í gegnum gáttina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert