Dregið hefur verulega úr virkni gossins

Sextán dagar eru liðnir frá því að eldgosið hófst við …
Sextán dagar eru liðnir frá því að eldgosið hófst við Sundhnúkagíga. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Dregið hefur verulega úr virkni eldgossins við Sundhnúkagíga sem hefur nú staðið yfir í 16 daga.

Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands segir að virknin sé í einum gíg og hefur gosið haldist nokkuð stöðugt frá því það hófst þann 29. maí.

Á kortinu sést hvar hraun hefur safnast í hrauntjörn suðaustan …
Á kortinu sést hvar hraun hefur safnast í hrauntjörn suðaustan við Sýlingarfell (rauðleit svæði) og hraunstraumurinn sem rennur þaðan norður fyrir Sýlingarfell. Gráleit svæði sýna hraun sem hafa runnið á svæðinu frá desember 2023. Kort/Veðurstofa Íslands

„Hraunbreiðan í þessu gosi er orðin 9,2 km2 og rúmmál um 41 milljón m3 og þar með sú stærsta síðan í desember 2023.  Hrauntjörn er enn til staðar en hraun rennur úr henni í virka hraunstrauminn norðan Sýlingarfells,“ segir í tilkynningunni.

Til samanburðar var hraunbreiðan sem myndaðist í eldgosinu sem hófst 16. mars og stóð yfir til 9. maí um 6,2 km2 að flatarmáli og 35 milljón m3.

Fram kemur að líklegt sé að gasmengun frá gosinu haldi áfram næstu daga og ekki sé æskilegt að stunda útivist á þeim svæðum þar sem mengun frá gosinu mælist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert