Jódís beinir spjótum sínum að sjálfstæðismönnum

Jódís segir ábyrgð ráðherra Sjálfstæðisflokksins í dómsmálaráðuneytinu að undanförnum árum …
Jódís segir ábyrgð ráðherra Sjálfstæðisflokksins í dómsmálaráðuneytinu að undanförnum árum vera mikla. Guðrún Hafsteinsdóttir er núverandi dómsmálaráðherra. Samsett mynd

Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir að mistökum lögreglumanna í störfum fjölgi vegna langvarandi fjárskorts og mönnunarvanda. Það sé á ábyrgð ráðherra Sjálfstæðisflokksins.

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið um stjórnartaumana í dómsmálaráðuneytinu árum saman og er ábyrgð ráðherranna þar á stöðu lögreglunnar rík. Það sama má segja um stöðu útlendingamála og fangelsismála, en það er önnur saga,“ skrifar Jódís í aðsendri grein í Morgunblaðið.

Jódís sagði fyrr í mánuðinum á Alþingi að hún læsi nær dag­lega um lög­reglu­menn sem fari offari í aðgerðum sín­um og beiti valdi og hörku gegn al­menn­um borg­ur­um.

„Mistökum fjölgar“

Ummæli hennar féllu ekki vel í kramið hjá sumum lögreglumönnum og í grein hennar í Morgunblaðinu í dag útskýrir hún mál sitt frekar.

„Þá liggur sömuleiðis í augum uppi að á meðan sama fólkið þarf að manna stöðugildi sem ættu að dreifast á mun fleiri hendur, þá endar það bara á einn veg: Mistökum fjölgar, fólk endar í kulnun eða veikindum.“

Ósammála auknum heimildum og vopnaburði

„Sem fulltrúi VG í fjárlaganefnd hef ég lagt ríka áherslu á að lögreglunni sé sýndur skilningur og niðurskurðarólin sé ekki þrengd enn frekar. Ég held með lögreglunni og virði hana, en er í grundvallaratriðum ósammála þeim rökum að vandi hennar leysist með auknum rannsóknarheimildum eða vopnaburði.

Hins vegar þarf að tryggja strax viðunandi vinnuaðstæður og mannsæmandi umhverfi. Það liggur í augum uppi,“ skrifar Jódís.

Lögreglumenn haft samband við hana

Þá greinir hún einnig frá því í grein sinni að í kjölfar ummæla hennar hafi lögreglumenn haft samband við hana og sagt að þeim vegið með orðræðu hennar.

„Ég hef hins vegar líka fengið talsvert af póstum frá almennum borgurum sem segjast hafa upplifað áreiti eða ofbeldi af hálfu lögreglu. Ég virði bæði sjónarmið og svo því sé haldið til haga þá hef ég í gegnum tíðina staðið með lögreglunni bæði í ræðu og riti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert