Samgöngur landsins settar í ruslatunnuna

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það hefur alveg verið öllum ljóst síðustu daga að þau hafi átt í miklum erfiðleikum með að semja um mál. Það eru innbyrðis átök sem eru þess valdandi að það var haldinn fundur klukkan hálf sjö í kvöld og í stað þess að fara með hana [samgönguáætlunina] í þingsal til atkvæðagreiðslu þá var hún sett á ís.“

Þetta segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar og nefndarmaður í umhverfis- og samgöngunefnd, í samtali við mbl.is.

Þorbjörg birti færslu í kvöld þar sem hún lýsir því að ríkisstjórnin hafi slátrað samgönguáætlun. Það þarf því að leggja áætlunina aftur fram í haust og byrja ferlið upp á nýtt.

Fjárfestingar upp á rúma 900 milljarða

„Þetta er mál sem hefur verið á dagskrá í umhverfis- og samgöngunefnd síðan í október þegar innviðaráðherra kynnti þetta mál og þetta er samgönguáætlun til næstu fimmtán ára sem varða framkvæmdir upp á rúma 900 milljarða,” segir Þorbjörg.

Nefndin hafi fundað með öllum sveitarfélögum landsins og mörgum öðrum hagaðilum. Allar samgöngur landsins, hafnir, vegir og göng séu á dagskrá með áætluninni sem sé sett í ruslatunnuna til að halda friði hjá ríkisstjórnarflokkunum.

„Þetta var algjörlega ákvörðun meirihlutans og eitt stærsta mál vetrarins,“ segir Þorbjörg.

Þú telur þetta vera aðallega vegna þess að þau ná ekki saman sem sagt?

„Þetta er eingöngu út af því. Það eru innbyrðis átök milli þessara flokka þriggja,“ svarar Þorbjörg.

Hún leggur áherslu á að þetta sé töluvert högg sem felst í því að bíða með þetta mál lengur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert