Fékk loksins að hitta frúna

Vel fór á með Valdimari og Elizu Reid á Bessastöðum.
Vel fór á með Valdimari og Elizu Reid á Bessastöðum. Ljósmynd/Lauren

Valdimar Sverrisson, ljósmyndari og uppistandari, hafði í tvígang hitt forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesson, formlega, fyrst á Bessastöðum en síðan í hófi í tilefni af 60 ára afmæli Sjálfsbjargar, en í hvorugt skiptið var forsetafrúin, Eliza Reid, með í för.

Það varð til þess að Valdimar spurði Guðna í seinna skiptið hvenær hann fengi eiginlega að hitta eiginkonu hans. „Aldrei,“ varð Guðna að orði, með glott á vör. Frá þessu hefur Valdimar sagt í uppistandi sínu og hér í Morgunblaðinu.

Þegar auglýst var opið hús á Bessastöðum um liðna helgi lét Valdimar ekki segja sér það tvisvar, heldur rauk af stað í því augnamiði að fá loksins að hitta forsetafrúna. Og það gekk eftir.

„Þegar síminn minn las fyrir mig frétt af Mbl.is um að forsetinn ætlaði í síðasta sinn að bjóða almenningi á Bessastaði hugsaði ég strax með mér að ég yrði að nýta mér það. Ég hafði því samband við liðveisluna mína, hana Lauren frá Bandaríkjunum, og Láru Margréti, 13 ára dóttur mína, og þær voru báðar meira en tilbúnar að bruna með mér beint á Bessastaði,“ segir Valdimar, sem er blindur. 

Guðni forseti fékk líka að vera með á mynd.
Guðni forseti fékk líka að vera með á mynd. Ljósmynd/Lauren


Forsetahjónin tóku sjálf á móti gestum og Láru Margréti þótti mikið til þess koma að forsetinn bar strax kennsl á föður hennar. „Ég sagðist vera kominn til að þakka þeim fyrir vel unnin störf í þágu lands og þjóðar og spurði hvort við fengjum ekki mynd af okkur saman og ég svo einn með Elizu – fyrst við værum loksins búin að hittast. Þau urðu að sjálfsögðu við því. Síðan skoðuðum við húsið en forsetahjónin sinntu öðrum gestum. Þetta var frábær dagur!“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert